Sjálfsmark tryggði Brighton stig

Joachim Andersen fórnar höndum eftir að hann setti boltann í …
Joachim Andersen fórnar höndum eftir að hann setti boltann í eigið net í kvöld. AFP

Brighton & Hove Albion og Crystal Palace skildu jöfn, 1:1, í fjörugum leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Eftir um 35 mínútna fékk Brighton vítaspyrnu eftir að Joel Veltman var felldur af Will Hughes í vítateignum.

Eftir langa athugun í VAR var ákveðið að halda sig við upphaflega dóminn. Pascal Gross steig á vítapunktinn en Jack Butland í marki Palace gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.

Skömmu síðar virtist Neal Maupay vera að koma Brighton yfir en mark hans var dæmt af vegna brots í aðdraganda þess.

Staðan því markalaus í hálfleik.

Conor Gallagher, sóknartengiliðurinn öflugi sem er í láni hjá Palace frá Chelsea, kom gestunum yfir á 69. mínútu með skoti úr teignum eftir sendingu frá Jeffrey Schlupp.

Seint í leiknum, á 87. mínútu, gaf Maupay þéttingsfasta sendingu fyrir markið. Joachim Andersen, miðvörður Palace, náði fyrstur til boltans en því miður fyrir hann stýrði boltanum í eigið net og jafnaði þannig metin fyrir heimamenn í Brighton.

Staðan orðin 1:1 og reyndust það lokatölur.

Bæði lið eru áfram um miðja deild, Brighton í áttunda sæti með 28 stig og Palace í 11. Sæti með 24 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert