Stuðningsmennirnir vilja hlut í félaginu

Newcastle er í harðri fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni og óvissa …
Newcastle er í harðri fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni og óvissa er um eignarhaldið á félaginu. AFP

Samtök stuðningsmanna enska knattspyrnufélagsins Newcastle United hafa skorað á stuðningsmenn að taka þátt í að fjármagna kaup á hlut í félaginu.

Í samtökunum NUST eru rúmlega 14 þúsund meðlimir og í áskorun til þeirra er óskað eftir því að þeir leggi fram litla fjárhæð hver um sig til þess að aðstoða við að bjarga félaginu ef það félli úr úrvalsdeildinni, lenda í vandræðum sem myndu leiða til eigendaskipta.

Mike Ashley eigandi Newcastle er ekki sérlega vinsæll meðal stuðningsmannanna en litlu munaði að hann seldi félagið til sádiarabískra kaupsýslumanna á síðasta ári fyrir rúmlega 300 milljónir punda.

Ekkert varð af kaupunum vegna gagnrýni á mannréttindabrot í Sádi-Arabíu og ásakana um að þar í landi væri sjónvarpsútsendingum frá alþjóðlegum fótbolta rænt og þær sýndar án leyfis.

Greg Tomlinson formaður NUST sagði við Sky Sports að um áratugaskeið hefði stuðningsmönnum verið sagt að þeir væru lífæð félagsins en þeir fengju hinsvegar aldrei að koma nálægt þegar stórar ákvarðanir um framtíð þess væru teknar.  „Því miður er það þannig, eins og í lífinu sjálfu, að peningar ráða ferðinni í fótboltanum. Þess vegna verðum við að leggja fram peninga ef við viljum taka virkan þátt í að móta framtíð Newcastle United. Þá getum við látið rödd okkar heyrast almennilega.“

Warren Barton, fyrrverandi leikmaður Newcastle og enska landsliðsins, er einn fjögurra stuðningsmanna sem hafa verið gerðir að fjárgæslumönnum sjóðsins. Samtökin segja að ef peningarnir nýtist ekki til að kaupa hlut í félaginu verði þeir látnir renna til góðgerðarmála á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert