Innlent

Bæta við mann­skap til að mæta neyðar­á­standi á bráða­mót­töku

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Runólfur Pálsson er forstöðumaður lyflækninga og bráðaþjónustu Landspítalans.
Runólfur Pálsson er forstöðumaður lyflækninga og bráðaþjónustu Landspítalans. Vísir

Landspítalinn mun bæta við mannskap á bráðamóttöku til að mæta því neyðarástandi sem þar hefur ríkt að undanförnu. Forstöðumaður á spítalanum telur að með því sé öryggi sjúklinga tryggt. Þetta sé þó tímabundin lausn og í höndum stjórnvalda að ráða úr vandanum.

Félag bráðalækna sendi frá sér yfirlýsingu á laugardag þar sem fram kom að yfirgnæfandi líkur væru á alvarlegum atvikum og jafnvel mannslátum í sjúklingaþjónustu á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi vegna undirmönnunar.

Til að mæta vandanum mun Landspítalinn auka viðveru lækna úr öðrum sérgreinum á bráðamóttökunni. Forstöðumaður á spítalanum segir vandann snúa að flæði sjúklinga frá bráðamóttökunni og inn á legudeildir spítalans. Vandinn sé ekki nýr þó hann hafi aldrei verið verri.

„Við getum hugsanlega gert stöðuna örlítið betri. Rót vandans er áfram fyrir hendi og það þarf einhvern veginn að finna lausn á því. Á spítalinn að leigja aðstöðu fyrir þessa einstaklinga einhvers staðar annars staðar? Ég held að við þurfum bara að takast á við þetta vandamál sem þjónustuúrræði fyrir aldraða er. Það á ekki að vera málefni Landspítala, það er málefni samfélagsins í heild,“ segir Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga og bráðaþjónustu Landspítalans.

Vandamálið eigi sér langa sögu og því sé erfitt að skella skuldinni á núverandi stjórnvöld.

„Hins vegar þá verður einhvers staðar byrja að takast á við vandann og þetta er bara samfélagsvandi, að bjóða öldruðu fólki upp á að dvelja í langan tíma á bráðasjúkrahúsi því það fær hvergi inni í samræmi við þeirra þörf. Þetta er samfélagsvandi og stjórnvöld verða náttúrulega að leiða þá vinnu til úrbóta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×