Sérstök tilfinning að sjá liðið sitt loksins í efstu deild

Leikmenn Tindastóls fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Leikmenn Tindastóls fögnuðu vel og innilega í leikslok. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

„Ég er bara í skýjunum, það er ekkert flóknara en það,“ sagði Guðni Þór Einarsson, þjálfari kvennaliðs Tindastóls í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í kvöld.

Tindastóll tryggði sér sæti í efstu deild kvenna í kvöld í fyrsta sinn í sögu félagsins en liðið vann 4:0-sigur gegn Völsungi á Húsavík í 1. deildinni, Lengjudeildinni, og leikur því í deild þeirra bestu næsta sumar.

„Það var ótrúlegt sætt að klára þetta þó þetta hafi vissulega legið í loftinu í smá tíma. Við pældum alveg í því fyrir leikinn í dag hvort við ættum að breyta út af vananum og gera eitthvað öðruvísi í okkar undirbúningi fyrir leikinn.

Að lokum ákváðum við að gera þetta eins og við höfum gert í allt sumar enda vissu stelpurnar nákvæmlega hvað væri í húfi fyrir leikinn. Þær standast pressuna svo sannarlega þegar komið er inn í leikinn í dag og kláruðu dæmið með miklum sóma.“

Guðni Þór Einarsson, þjálfari Tindastóls, til hægri.
Guðni Þór Einarsson, þjálfari Tindastóls, til hægri. Ljósmynd/Tindastóll

Héldu væntingunum í lágmarki

Tindastóll var nýliði í 1. deildinni síðasta sumar en þrátt fyrir það hafnaði liðið í þriðja sæti deildarinnar með 37 stig, tveimur stigum minna en FH, sem endaði í öðru sæti og fór upp um deild.

„Síðasta tímabil gaf okkur ákveðinn kraft, farandi inn í þetta tímabil, þar sem við fengum smjörþefinn af því að vera í toppbaráttu. Markmiðið í sumar var svo bara að enda ofar en við gerðum í fyrra og gera betur. Við vorum líka reynslunni ríkari eftir eitt ár í deildinni og það hjálpar alltaf.

Okkur tókst að halda væntingunum niðri þótt markmiðið hafi alltaf verið að fara upp um deild í sumar. Við vorum grátlega nálægt því í fyrra en að sama skapi vorum við sannfærð um að við gætum farið alla leið á þessu keppnistímabili og klárað dæmið.

Bæði leikmenn og allir í kringum félagið hafa verið mjög einbeittir á stóra markmiðið í allt sumar. Þá er blandan í hópnum í ár frábær og það eiga allir sinn þátt í þessu afreki.“

Murielle Tiernan sækir að marki Völsungs á Húsavík í dag.
Murielle Tiernan sækir að marki Völsungs á Húsavík í dag. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Deildin jafnari í ár

Tindastólsliðið hefur sýnt mikinn stöðuleika í 1. deildinni í sumar en liðið hefur unnið þrettán leiki, gert eitt jafntefli og aðeins tapað einum leik.

„Mér finnst deildin vera jafnari í ár og það eru fleiri góð lið en í fyrra. Það eru mörg lið í ár sem geta tekið stig hvort af öðru. Við höfum náð að klára okkar leiki þótt við höfum ekki alltaf verið að spila frábærlega en það einkennir gott lið að mínu mati, að klára dæmið þótt við séum ekki að finna taktinn.

Þegar allt kemur til alls þá eru mjög góð lið og góðir þjálfara í deildinni ár sem hafa öll veitt okkur mikla samkeppni. Þegar ég horfi til baka þá held ég að Keflavíkurleikurinn í Keflavík, þar sem við unnum 3:1-sigur hafi aðeins sett tóninn fyrir okkur því við höfum unnið sex leiki í röð síðan þá, án þess að fá á okkur mark.“

Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, kemur sínu liði yfir gegn …
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, kemur sínu liði yfir gegn Völsungi. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Bikarinn á Sauðárkrók

Guðni Þór er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og er hann afar stoltur af árangri liðsins.

„Ég er hálf hrærður ef ég á að segja alveg eins og er. Maður er búinn að vera Tindastólsmaður frá því að maður fæddist og æfa fótbolta upp alla yngri flokkana ásamt því að mæta á alla körfuboltaleiki alveg frá því í barnæsku. Það er sérstök tilfinning að sjá liðið sitt loksins komið í efstu deild og ég er gríðarlega stoltur.

Við erum ekki byrjuð að leiða hugann að næsta sumri og planið núna er fyrst og fremst að klára deildina með sóma og fá bikar í hendurnar. Við tökum því svo bara rólega í haust og næsta stóra verkefni hjá mér er að taka á móti barni þannig að undirbúningur fyrir næsta tímabil fer bara af stað í ró og næði,“ bætti Guðni Þór við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert