Mariam Laperashvili hefur verið ráðin markaðsstjóri fjölmiðla hjá Stöð 2 og Vodafone. Undanfarin tvö ár hefur hún unnið sem sjálfstæður ráðgjafi að markaðsmálum fyrir fjölmörg fyrirtæki, meðal annars Koikoi vefverslunarstofu og Reon hugbúnaðarhús ásamt þeirra dótturfélögum.

Mariam er viðskiptafræðingur að mennt, lauk B.Sc. námi frá Háskóla Íslands og stundaði einnig nám við George Washington University þar sem hún sérhæfði sig í markaðsfræðum.

Í Washington D.C vann hún að markaðsrannsóknum fyrir National Geographic og sem markaðsstjóri WorkAmerica. Hún gengdi stöðu markaðsstjóra Sagafilm og síðar sem sölu og markaðsstjóri Tulipop.

Þá hefur Mariam einnig stutt við fyrirtæki í nýsköpun og verið mentor í bæði Gullegginu og viðskiptahraðli hjá KLAK.

„Ég er stolt að vera hluti af stærsta fjölmiðli landsins og þeim einstaka mannauð sem félagið samanstendur af. Við erum að vinna að mjög spennandi verkefnum á mörgum vígvöllum ásamt því að bæta upplifun og þjónustu við okkar viðskiptavini og hlakka ég mikið til að leggja hönd á plóginn“ segir Mariam Laperashvili.

„Við erum á einstaklega góðri vegferð í fjölmiðlum okkar og framundan eru skemmtilegir tímar með margvíslegum nýjungum. Ég er sannfærður um að Mariam eigi eftir að blómstra enda kemur hún með mikla þekkingu inn í okkar öfluga markaðsteymi,” segir Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2 og Vodafone.