Haukar sitja djúpt í hjarta mínu

Bragi Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, ásamt Breka Gylfasyni og Hilmari …
Bragi Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, ásamt Breka Gylfasyni og Hilmari Smára Henningssyni við undirskriftina í dag. mbl.is/Gunnar Egill

Körfuknattleiksmaðurinn Hilmar Smári Henningsson kveðst ánægður með að vera snúinn aftur til uppeldisfélagsins Hauka þó að endurkoman í heimahagana hafi ekki verið jafn sjálfsögð og margur skyldi ætla.

„Tilfinningin er mjög góð. Það er alltaf gott að geta komið aftur heim ef tækifærið gefst. Þetta hefur ekki verið jafn auðvelt val og margir myndu halda, að það að koma heim sé bara 100 prósent klárt.

En tilfinningin er góð og ég er örugglega einn af fáum leikmönnum frá Haukum sem hefur aldrei fengið að spila í Ólafssal þannig að það verður mjög spennandi að fá að prófa mig áfram þar,“ sagði Hilmar Smári í samtali við mbl.is eftir að hann og Breki Gylfason voru tilkynntir sem nýir leikmenn á blaðamannafundi Hauka á Ásvöllum í dag.

Hilmar Smári lék með Stjörnunni á síðasta tímabili og varð bikarmeistari með Garðabæjarliðinu. Spurður nánar út í valið á Haukum sagði hann:

„Það voru alveg einhver önnur lið að tala við mig og ég sýndi alveg áhuga en það kom svolítil U-beygja. Fyrir mér var ég í rauninni ekkert að fara að skipta um lið eftir tímabilið en eitt og annað gerðist eins og oft er, þetta er náttúrlega bara bissness.

Það voru nokkur lið á eftir manni en það sem Haukarnir hafa fram yfir þau er að þetta er mitt heimili og þetta er fólk sem manni þykir vænt um. Þetta eru bara Haukar, sem sitja djúpt í hjarta mínu.“

Fallbarátta kemur ekki til greina

Haukar eru nýliðar í úrvalsdeildinni eftir að hafa unnið 1. deildina í fyrstu tilraun í vor. Hilmar Smári sagði ekki koma til greina að vera í fallbaráttu eða meðalmennsku á næsta tímabili.

„Vonir okkar og markmið eru bara að fara beint í toppbaráttu, allavega vera í úrslitakeppnis sæti, og vera ekki í neinu rugli. Það fyrsta sem ég sagði við Braga [Magnússon, formann körfuknattleiksdeildar Hauka] á fyrsta fundi var að ég væri ekki að fara í neina meðalmennsku og ég veit að það er enginn sem nennir því.

Bragi, Tobbi [Tobías Sveinbjörnsson varaformaður körfuknattleiksdeildar], stjórnin og Máté [Dalmay þjálfari] eru síðustu mennirnir til þess að nenna að fara í einhverja meðalmennsku eða fallbaráttu. Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að vera á toppnum og gera Haukana að þvílíkt skemmtilegu körfuboltaliði aftur,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert