Íslenski boltinn

Þriðja íslenska félagið á þremur árum hjá Tiffany

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiffany Janea McCarty í leik með Breiðabliki í bikarúrslitaleiknum.
Tiffany Janea McCarty í leik með Breiðabliki í bikarúrslitaleiknum. Vísir/Hulda Margrét

Þór/KA heldur áfram að styrkja sig fyrir komandi Íslandsmót í knattspyrnu kvenna og í dag kynnti liðið bandaríska framherjanna Tiffany Janea McCarty.

Tiffany þekkir vel til íslensku deildarinnar en hún er að fara að spila með þriðja liðinu á þremur árum.

McCarty spilaði með Selfossi sumarið 2020 og með Breiðabliki í fyrra. Hún skoraði 9 mörk í 16 deildarleikjum með Selfossliðinu og 8 mörk í 17 deildarleikjum með Blikum. McCarty varð bikarmeistari með Breiðabliki og skoraði í bikarúrslitaleiknum.

„Við vildum bæta við fleiri mörkum hjá liðinu og Tiffany er leikmaður sem mun án efa skila því til liðsins. Á undanförnum vikum höfum við breyst úr mjög ungum leikmannahópi í það að vera með gott jafnvægi á milli ungra og reyndra leikmanna. Liðið og þjálfararnir hlakka til að vinna með Tiffany ásamt öðrum mikilvægum leikmönnum sem við höfum bætt í hópinn,“ segir Perry Mclachlan, annar þjálfari Þór/KA, viðtali við heimasíðu Þór/KA.

Hinn þjálfarinn, Jón Stefán Jónsson, er líka ánægður með nýja leikmanninn sem er ætlað að koma með meiri reynslu inn í ungt lið norðankvenna.

„Koma Tiffany er mikilvægt púsl í því markmiði að koma ákveðnu jafnvægi á aldurssamsetningu hópsins. Hún kemur ekki bara með gæði heldur gífurlega reynslu sem atvinnumaður og mun hjálpa okkur að efla og kenna okkar ungu stelpum. Ég bind miklar vonir við hana utan vallar, ekki síður en innan vallar og hlakka mikið til að vinna með henni,“ segir Jón Stefán.

Á háskólaárunum sínum vestra þá var Tiffany McCarty liðsmaður Florida State Seminoles, þar sem hún spilaði 98 leiki og skoraði 63 mörk á árunum 2008-2012.

Tiffany Janea McCarty mun spila í framlínu Þór/KA með Söndru Maríu Jessen sem kom heim úr atvinnumennsku á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×