Erlent

49 börn drukknuðu í skóla­ferð

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fjöldi fólks vottaði þeim látnu virðingu sína í gær.
Fjöldi fólks vottaði þeim látnu virðingu sína í gær. Getty/Hussain Ali

51 manns létu lífið er bát hvolfdi á Tanda Dam-vatninu nærri borginni Kohat í Pakistan, þar af 49 börn. Börnin voru ásamt kennurum og skipstjóra í skólaferð á vatninu. 

Börnin voru á aldrinum sjö til fjórtán ára gömul og tók það björgunaraðila þrjá daga að koma líkum þeirra allra í land vegna þess hve kalt vatnið var. 

Báturinn var yfirfullur af fólki en að hámarki máttu 25 manns vera í honum en alls voru farþegar 56 talsins. Björgunaraðilum tókst að bjarga fjórum börnum og einum kennara. 

„Ég hef aldrei séð neitt annað eins á ævi minni, þetta er eitthvað sem er ekki hægt að útskýra með orðum,“ hefur The Guardian eftir Muhammad Umar sem starfar nálægt vatninu. 

Umar sagði foreldra barnanna hafa beðið við vatnið í marga daga og fylgst með þegar bátar komu með líkin upp á land. „Þau hlupu til kafaranna til að sjá hvort þetta væri þeirra barn og í hvert sinn heyrðum við angistaróp.“

Foreldrar og aðrir aðstandendur bíða eftir því að kafarar komi aftur í land. Getty/Hussain Ali

Tengdar fréttir

Tíu börn drukknuðu í skóla­ferða­lagi

Tvö hræðileg slys urðu í Pakistan í dag. Annars vegar mannskætt bílslys og hins vegar þegar bátur sökk. Að minnsta kosti fimmtíu hafa látið lífið í slysunum tveim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×