Samkynja hjónabönd leyfileg innan krúnunnar

Willem-Alexander, konungur Hollands, ásamt Maximu drottningu og dætrum.
Willem-Alexander, konungur Hollands, ásamt Maximu drottningu og dætrum. PATRIK STOLLARZ

Samkynja hjónabönd hafa verið lögleg í Hollandi frá árinu 2001 en ávallt hefur verið gert ráð fyrir að slíkt myndi ekki líðast innan konungsfjölskyldunnar og að konungshjón þyrftu að eiga erfingja fyrir krúnuna. 

Nú hefur Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, skýrt út að hvaða drottning eða konungur sem er gæti og mætti vera í samkynja hjónabandi. BBC greinir frá. 

Sömuleiðis er bent á að núverandi erfingi krúnunnar, Amalía prinsessa, verður átján ára 18. desember. 

Rutte segir að skýringar sínar eigi einungis við í ímynduðum tilfellum, en að tilvonandi drottning megi giftast konu, kjósi hún það. 

Tilefni umræðunnar er svar Rutte við skriflegri fyrirspurn frá eigin þingflokki. Hann svarar henni og segir að stjórnarráðið líti ekki svo á að erfingi þurfi að víkja, kjósi hann samkynja hjónaband. 

Hugleiðingum um málið var fyrst velt upp í bók sem kom út í sumar, en hvorki leikur grunur á að Amalía prinsessa sé samkynhneigð né heldur að von sé á að hún gifti sig bráðlega. Bókin vakti töluverða athygli og umtal í Hollandi og varð svo að tveir þingmenn úr flokki forsætisráðherra ákváðu að leggja fram formlega fyrirspurn um hið ímyndaða tilfelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert