Viðskipti innlent

Spá því að verð­bólga hjaðni á milli mánaða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úr Reykjavík.
Úr Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans spá því að ársverðbólga hjaðni lítillega þegar næstu verðbólgutölur verða gefnar út. Sérfræðingar beggja deilda sjá fyrir sér að verðbólga lækki hægt næstu mánuði.

Ársverðbólga mælist nú 10,2 prósent og leita þarf nokkuð mörg ár aftur í tímann til að finna sambærilegar verðbólgutölur.

Sérfræðingar Íslandsbanka og Landsbankans hafa nú rýnt í tölurnar og spáð fyrir um þróun næstu missera, en næstu verðbólgutölur verða gefnar út 28. mars næstkomandi.

Þannig reiknar Íslandsbanki með að vísitala neysluverðs hækki um 0,7 prósent á milli mánaða. Það felur í sér að ársverðbólga fari úr 10,2 prósent í 10,0 prósent.

Landsbankinn er örlítið bjartsýnni og spáir 0,61 prósent hækkun á milli mánaða á vísitölu neysluverðs. Það felur í sér að ársverðbólga fari úr 10,2 prósent í 9,8 prósent.

Báðir bankar spá því að verðbólga muni fara lækkandi á næstu misserum. Sú þróun verði þó hæg. Þannig reiknar Landsbankinn með yfir átta prósent verðbólgu þegar sumarið kemur. Er Íslandsbanki einnig á sömu slóðum hvað varðar framtíðarspá.

„Við, eins og aðrir greinendur, höfum undanfarið verið of bjartsýn um verðbólguhorfur og er óvissan um nærhorfurnar mikil. Á næstu mánuðum munu stórir hækkunarmánuðir þó detta út úr ársverðbólgunni og þess vegna teljum við að verðbólga muni hjaðna. Í bráðabirgðaspá okkar spáum við 0,4% hækkun í apríl, 0,3% í maí og 0,5% í júní. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,6% í júní. Þetta er þó hægari hjöðnun en við höfðum áður gert ráð fyrir. Við gerum svo ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 8,0% á árinu,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Í næstu viku mun peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynna næstu stýrivaxtaákvörðun. Fastlega er gert ráð fyrir því að nefndin muni hækka stýrivexti. Þannig spáir Íslandsbanki 0,75 prósentustiga hækkun, sem myndi setja stýrivexti í 7,25 prósent.


Tengdar fréttir

Kaupmáttur rýrnaði um 1,7 prósent í fyrra

Hagstofa Íslands áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hafi dregist saman um 1,7 prósent í fyrra borið saman við árið áður. Kaupmáttarrýrnunin var enn meiri á síðasta fjórðungi ársins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×