Víkingagarður á sögufrægum slóðum

Eigendur Viking Park, f.v. Victor Berg Guðmundsson. Páll Tómasson og …
Eigendur Viking Park, f.v. Victor Berg Guðmundsson. Páll Tómasson og Jóhann Vignir Hróbjartsson mbl.is/Jónas Erlendsson

Ferðaþjónustufyrirtækið Viking Park Iceland ehf. í Mýrdalshreppi hefur gert leigusamning við Mýrdalssand ehf., eiganda jarðarinnar á Hjörleifshöfða, vegna uppbyggingar á víkingagarði við Hjörleifshöfða.

Þar verður sögutengd og fjölbreytt afþreying fyrir alla fjölskylduna, sem búist er við að hafi jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu í Mýrdalshreppi.

Eigendur Viking Park vilja m.a. vekja athygli á sögu Hjörleifs Hróðmarssonar sem grafinn er á toppi Hjörleifshöfða, en hann var fóstbróðir Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns Íslands. Næstu skref eru að fara í nauðsynlega og kostnaðarsama uppbyggingu innviða og vernd náttúrunnar með því að laga og merkja vegslóða inn á svæðið, gera aðgengileg bílastæði, lagfæra göngustíga, smíða víkingaskip og fleira, að því er framkvæmdastjóri Viking Park, Jóhann Vignir Hróbjartsson, segir.

Aðgengið ekki heft

Fyrirtækið mun hvorki loka né hefta aðgengi almennings að Hjörleifshöfða né upp að Hafursey. Þvert á móti er verið að byggja upp ferðaþjónustu í heimabyggð, bæta aðgengi og auka öryggi. Sett verða upp upplýsingaskilti til að koma í veg fyrir utanvegaakstur og landskemmdir, sérstaklega á slóðum sem liggja að og í kringum Hafursey sem eru aðeins færir fjórhjóladrifnum jeppum og ofurjeppum á vetrartíma.

Ferðaþjónustuaðilar, kvikmyndafyrirtæki og aðrir sem gera út skipulagðar endurteknar ferðir í atvinnuskyni inn að Hafursey, og nýta þá innviði sem eigendur Viking Park eru skuldbundnir til að halda við, gera það með skriflegu leyfi Viking Park Iceland ehf. Á síðustu árum hefur orðið sprenging í ferðum að og í kringum Hafursey og má áætla að yfir 50.000 ferðamenn fari í skipulagðar ferðir um slóðann árlega. Þörf er á miklu viðhaldi á vegslóðum vegna stóraukinnar umferðar stórra jeppa auk þess sem slóðinn er að stórum hluta niðurgrafinn og virkar því eins og árfarvegur í leysingum og miklum rigningum og rennur þá úr brautinni.

Samstarf við fyrirtæki, verktaka og aðra ferðaþjónustuaðila í Mýrdalshreppi mun skapa störf, atvinnutækifæri og auka fjölbreytta afþreyingu fyrir alla sem heimsækja Mýrdalshrepp og koma í heimsókn í Víkingagarðinn við Hjörleifshöfða.

Hægt verður að nálgast upplýsingar á heimasíðu félagsins https://vikingagardurinn.is/

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert