Opna veginn inn að Landmannalaugum

Frá Landmannalaugum. Mynd úr safni.
Frá Landmannalaugum. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Vegurinn inn að Landmannalaugum hefur nú verið opnaður, ásamt Fjallabaksleið nyrðri frá Sigölduvirkjun og að Landmannalaugavegi.

Frá þessu greinir Vegagerðin í tilkynningu, með útgáfu nýs hálendiskorts sem tekur gildi í dag.

Eins og áður sagði er búið að opna fyrir fjórhjóladrifnar bifreiðar á Fjallabaksleið nyrðri frá Sigölduvirkjun og suður að Landmannalaugavegi. Unnið er að heflun á svæðinu og því er vegurinn frekar holóttur, þá sérstaklega sunnan við Ljótapoll.

Þá er sömuleiðis búið að opna veginn fyrir fjórhjóladrifna bíla frá Skaftártungu og upp í Eldgjá.

Brú löskuð og tefur fyrir opnun

Bílar búnir fjórhjóladrifi geta þá einnig farið um Vesturheiðarveg upp að Mælifellsdalsvegi.

„Fréttir hafa einnig borist af því að brúin yfir Jökulgilskvísl sé löskuð eftir veturinn og mun það tefja opnun á Fjallabaksleið nyrðri (F208) milli Landmannalauga og Eldgjár,“ segir í tilkynningunni.

Þá styttist í opnun Landmannaleiðar (F225), Lakavegar (F206), Lakagígavegar (F207) og Emstruleiðar (F261). Búast má við því að þessar leiðir verði færar um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert