Á fjórða tug til rannsóknar fyrir vörslu barnakláms

Lögregla hefur hundruð þúsunda mynda af barnaníðsefni undir höndum.
Lögregla hefur hundruð þúsunda mynda af barnaníðsefni undir höndum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega þrjátíu íslenskir karlmenn eru til rannsóknar hjá lögreglu fyrir vörslu og dreifingu barnakláms. Greint var frá þessu í grein sem Kompás birti í dag.

Bæði er um myndir og myndskeið að ræða, og er magn þeirra í hundruðum þúsunda. 21 karlmaður er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og tólf karlmenn til rannsóknar hjá öðrum lögregluembættum landsins. Hafa þeir allir verið handteknir, og af þeim teknar skýrslur.

Bylgja Hrönn Baldursdóttir, lögreglufulltrúi hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir engan sérstakan aldurshóp vera áberandi í brotum af þessu tagi. „Þetta er bara allur aldur,“ segir Bylgja í samtali við mbl.is.

Brotin eru misgróf, sumir karlmannanna höfðu tugi kyrrmynda af barnaníðsefni undir höndum en aðrir hundruð þúsunda. Hámarksrefsing sem hegningarlög leyfa fyrir brot af þessu tagi er tveggja ára fangelsi.

Finnst þér þurfa að endurskoða þetta refsiákvæði?

„Algjörlega, ég er búin að vera talsmaður fyrir því í langan tíma,“ segir Bylgja. Hún segir ákvæðið ekki bara of vægt heldur einnig óskýrt og að skerpa þurfi á því. „Það er alveg orðið tímabært að endurskoða þessa löggjöf. Líka svo hún rammi svolítið utan um vandamálið.“

Bylgja segir einnig athyglisvert að ítrekuð brot komi ekki til refsiþyngingar. „Það er nokkuð sem mætti skoða. Ef ég tek einstakling sem er svo ákærður og fær á sig dóm, og svo er hann aftur tekinn seinna, þá hefur það ekki ítrekunaráhrif.“

Umfjöllun Kompáss má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert