Tottenham missteig sig í sex marka leik

Liðsmenn Tottenham fagna marki Ivan Perisic.
Liðsmenn Tottenham fagna marki Ivan Perisic. AFP/Adrian Dennis

Það var mikið skorað í þeim fjórum leikjum sem fram fóru í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta klukkan 15 í dag.

Southampton og Tottenham gerðu sex marka jafntefli, 3:3, á St Mary´s. Pedro Porro kom Tottenham yfir undir lok fyrri hálfleiksins en Che Adams jafnaði metin fyrir Southampton í upphafi seinni, 1:1.

Harry Kane og Ivan Perisic komu svo Tottenham í 3:1 en ólseigir Southampton-menn minnkuðu muninn á 78. mínútu þökk sé Theo Walcott, 2:3.

Það var svo James Ward Prowse sem jafnaði metin í uppbótartíma með marki úr vítaspyrnu og við stóð. 

Tottenham er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 49 stig en Southampton er í neðsta sæti með 23 stig. 

Leeds vann gífurlega mikilvægan útisigur á Wolves, 4:2. Jack Harrison, Luke Ayling, Rasmus Kristensen og Rodrigo skoruðu mörk Leeds en Jonny og Matheus Cunha skoruðu mörk Wolves.

Ásamt því að tapa fékk Wolves á sig tvö rauð spjöld en bæði Jonny og Matheus Nunes voru reknir af velli undir lok leiks. 

Leeds er í 14. sæti deildarinnar með 26 stig. Wolves er sæti ofar með stigi meira. 

Aston Villa fór létt með Bournemouth, 3:0, á Villa Park. 

Douglas Luiz, Jacob Ramsey og Emi Buendia skoruðu mörk Villa sem er í tíunda sæti með 38 stig. Bournemouth er í næstneðsta sæti með 24 stig. 

Brentford og Leicester gerðu 1:1 jafntefli í Lundúnum. Mathias Jensen kom Brentford yfir á 32. mínútu en Harvey Barnes jafnaði metin fyrir Leicester á þeirri 52. 

Brentford er í áttunda sæti deildarinnar með 42 stig. Leicester er í 16. með 25. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert