Snör handtök komu í veg fyrir rafmagnsleysi

Snjóbíll Hjálparsveitar skáta í Reykjavík með búnað Landsvirkjunar og Jarðvísindastofnunar.
Snjóbíll Hjálparsveitar skáta í Reykjavík með búnað Landsvirkjunar og Jarðvísindastofnunar. Ljósmynd/Almannavarnir

Nýrri rafstöð hefur verið komið upp við skála Jöklarannsóknarfélags Íslands á Grímsfjalli í Vatnajökli. Rafstöðin knýr rannsóknartæki á vegum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Veðurstofunnar sem notuð eru til að fylgjast með jarðeðlisfræðilegum breytingum í Grímsvötnum, auk þess sem hún sér TETRA-sendi Neyðarlínunnar fyrir rafmagni.

Rafstöðin bilaði í vikunni og hefur síðustu daga keyrt á rafgeymahleðslu sinni en aðeins var nægt rafmagn eftir til að knýja hana í um sólarhring til viðbótar þegar nýja stöðin var tekin í gagnið.

Frá þessu er greint í færslu almannavarna á Facebook. Þar segir að það hafi verið til happs að hópur frá Landsvirkjun, Jarðvísindastofnun og Neyðarlínunni hafi verið við mælingar á Vatnajökli og hafi allir þar lagst á eitt til að koma nýrri rafstöð upp á Grímsfjall. Fyrst var óskað eftir aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar, en í ljós kom að rafstöðin var of þung fyrir þyrlu.

Var þá tekin ákvörðun um að rafstöðin færi landleiðina austur að Skálafellsjökli og á sama tíma færi snjóbíll Hjálparsveitar skáta til móts við hana niður að jökulsporði. Vel gekk að koma ragstöðinni fyrir í snjóbílnum og var hún komin upp á Grímsfjall um klukkan fjögur í nótt eða 18 tímum eftir að óskað var eftir nýrri rafstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert