Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, tilkynntu báðir um hálfs prósentu vaxtahækkun í hádeginu. Stýrivextir bankanna tveggja hafa ekki verið hærri frá fjármálahruninu árið 2008.

Englandsbanki hækkaði vexti um hálfa prósentu, upp í 4,0%. Stýrivextir Seðlabanka Evrópu hækka úr 2,0% í 2,5%.

Eftir tíu vaxtahækkanir í röð gaf Englandsbanki þó til kynna að ekki væri sjálfsagt að peningastefnunefnd bankans hækki vexti á næstu fundum sínum. Næstu ákvarðanir muni velta á hagtölum. Nefndin muni aðeins þrengja að taumhaldi peningastefnunnar ef gögnin gefi til kynna meira viðvarandi verðbólguþrýsting.

Gengi pundsins veiktist eftir tilkynningu bankans og ávöxtunarkrafa á tíu ára ríkisskuldabréfum lækkaði um 13 punkta, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Það var annar tónn í yfirlýsingu Seðlabanka Evrópu sem sagðist ætla að halda áfram á sömu braut. Bankinn hyggst hækka vexti um hálfa prósentu til viðbótar við næstu vaxtaákvörðun í mars.

Verðbólga á evrusvæðinu mældist 8,5% í janúar. Verðbólgan í Bretlandi er nú um 10,5% samkvæmt síðustu mælingu en hún fór hæst í 11,1% í október.