„Súrrealískt“ að vera á hinum endanum

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar. Ljósmynd/Lögreglan

Rögn­vald­ur Ólafs­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn almannavarnadeildar, segist hafa það bærilegt eftir að hafa greinst með Covid-19-sjúkdóminn í síðustu viku. Hann er nú í einangrun ásamt eiginkonu sinni og barni, en aðrir í fjölskyldunni eru í sóttkví. 

Greint var frá því fyrr í dag að Rögnvaldur, sem hefur verið áberandi í baráttu almannavarna og sóttvarnayfirvalda við kórónuveirufaraldurinn, hefði sýkst af veirunni. 

Í samtali við mbl.is segist Rögnvaldur hafa það ágætt í einangruninni. 

„Við erum með bara klassísk einkenni og höfum það ágætt, við hjónin greindumst á sama tíma,“ segir Rögnvaldur.

„Konan mín fékk greiningu á fimmtudagskvöld og ég á föstudagsmorgun svo við erum á fjórða, fimmta degi. Við erum alveg með einkenni en okkur líður bærilega. Ég var með mikla vöðvaverki á fyrsta degi, leið eins og ég hefði verið að lyfta flutningabíl daginn áður. En það hefur farið svona hægt minnkandi síðan. Við erum fimm hérna í fjölskyldunni, þrjú í einangrun og svo eru tveir í sóttkví.“

Rögnvaldur segir það ekki staðfest hvernig hann hafi smitast af veirunni. 

„Við erum ekki með það staðfest en vitum allavega að það er ekki tengt Landspítalanum. Konan mín er að vinna á bráðadeildinni svo það var mikilvægt að vita hvort okkar smit tengdust smiti sem kom upp þar. Við raðgreiningu kom í ljós að það var ekki svo þetta smit er bara úr nærsamfélagi okkar,“ segir Rögnvaldur. 

Frábært hvað kerfið virkar vel 

Þrír aðrir starfsmenn almannavarnadeildar þurftu að fara í sóttkví eftir að smitið kom upp. 

„Það er hólfaskipting hjá okkur og við erum búin að dreifa starfsstöðvum til að minnka líkur á að missa út stóran hluta af starfseminni ef eitthvað svona kemur upp,“ segir Rögnvaldur. 

„Það er svolítið svona súrrealískt að verið búinn að vinna í þessu verkefni frá því í lok janúar og vera svo kominn á þennan enda. Við erum bæði í þannig vinnu og höfum passað okkur extra vel, erum búin að vera svona „leiðinlega fólkið“ og það var snemma sem við byrjuðum að loka okkur af. Maður hefur bara ekki stjórn á öllu í kringum sig. Núna erum við bara að prófa hvernig kerfið virkar frá þessum enda og enn sem komið er er ég mjög ánægður með þá þjónustu sem við höfum fengið og það er frábært hvað þetta virkar vel,“ segir Rögnvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert