Turf deildin hálfnuð – LAVA með fullt hús stiga

Turf Deildin í Rocket League.
Turf Deildin í Rocket League. Grafík/Turf Deildin

Sjöunda umferð Turf deildarinnar kláraðist í gær sem þýðir að tímabilið er hálfnað, en fjórtán umferðir eru leiknar á tímabilinu. LAVA esports eru enn taplausir á toppi deildarinnar, en hafa þeir hvorki tapað leik né viðureign það sem af er tímabili.

Sex efstu liðin fara í úrslitakeppni

Fjórar viðureignir fór fram í gærkvöldi, en allar viðureignir deildarinnar eru best-af-5, sem þýðir að það lið sem er fyrst að vinna þrjá leiki sigrar viðureignina. 

Þau lið sem enda í efstu sex sætunum eftir deildarkeppnina fara í úrslitakeppni þar sem þau keppast um íslandsmeistaratitilinn. Liðið sem endar í neðsta sæti í deildarkeppninni fellur niður í fyrstu deild, en næstneðsta sætið fer í umspil.

Deildin er þó aðeins hálfnuð, og því fullt af stigum eftir í pottinum. Nú hafa öll liðin mæst einu sinni, og munu öll liðin mætast aftur í síðari helming deildarinnar.

Spáðu einhliða viðureignum

Lýsendur spáðu einhliða viðureignum, eða 3-0 sigrum, fyrir leiki gærkvöldsins. Það varð þó ekki raunin en aðeins tvær af fjórum viðureignum enduðu 3-0.

Eftir viðureignir gærkvöldsins situr LAVA á toppi deildar en Rafík fylgir þeim fast eftir í öðru sætinu. OCtai esports sitja í fallsæti, en Panda Bois í umspilssæti.

Staða Turf deildarinnar eftir sjö umferðir.
Staða Turf deildarinnar eftir sjö umferðir. Grafík/Turf deildin

Yfirburðir LAVA esports halda áfram

Fyrsta viðureign kvöldsins var milli LAVA esports og Þór Akureyri. LAVA hafa verið óstöðvandi á tímabilinu líkt og síðustu tímabil, en áður spiluðu þeir undir nafninu KR White. Þór Akureyri hafa spilað ágætlega í síðustu leikjum eftir erfiða byrjun.

Engin breyting var á gengi LAVA eftir viðureign gærkvöldsins, en LAVA vann viðureignina örugglega 3-0. Þór Akureyri sýndi þó flotta takta á nokkrum tímapunktum í viðureigninni. LAVA eru enn taplausir í deildinni og hafa ekki tapað leik í viðureign. 

KR aftur á sigurbraut

KR og oCtai Esports mættust í annarri viðureign kvöldsins. OCtai Esports er eina liðið í deildinni sem er án stiga og eru þeir því í fallsæti. KR voru í 4. - 5. sæti með Midnight Bulls fyrir viðureignina. 

Viðureignin var aldrei spennandi, en KR sigraði 3-0. Sigur KR var aldrei í hættu, en þeir unnu alla leiki viðureignarinnar örugglega. OCtai gáfust þó ekki upp og sýndu enn og aftur baráttu, en virðist vera að lið oCtai séu einu skrefi á eftir hinum liðum deildarinnar þar sem þeir sitja á botninum.

Rafík halda fast í annað sætið

Þriðja viðureign kvöldsins var milli Somnio og Rafík. Rafík hefur staðið sig vel það sem af er tímabili og höfðu þeir fyrir viðureignina aðeins tapað fyrir LAVA esports. Somnio höfðu aðeins unnið tvær viðureignir en hefur þeim gengið erfiðlega að ná í stig það sem af er tímabili.

Somnio byrjaði viðureignina betur þrátt fyrir að hafa þurft að tefla fram varamanni, en þeir unnu fyrsta leikinn. Það varð þó eini leikurinn sem þeir unnu það kvöldið, en Rafík vann næstu þrjá leiki viðureignarinnar. Endaði viðureignin með 3-1 sigri Rafík og héldu þeir því öðru sæti sínu í deildinni. Somnio litu betur út á vellinum í gærkvöldi en þeir hafa gert það sem af er tímabili, en hefur gengi þeirra á tímabilinu verið undir væntingum. 

Panda Bois stríddu Midnight Bulls

Fjórða og síðasta viðureign kvöldsins var milli Panda Bois og Midnight Bulls. Midnight Bulls hafa staðið sig vel á tímabilinu, en Panda Bois hefur gengið erfiðlega og höfðu þeir aðeins unnið eina viðureign á tímabilinu. Panda Bois tefldi fram varamanni líkt og Somnio en það var ekki að sjá á vellinum. 

Midnight Bulls byrjuðu viðureignina betur og komu stöðunni í 2-0. Panda Bois gáfust ekki upp og unnu í kjölfarið næsta leik og settu stöðuna í 2-1. Midnight Bulls unnu næsta leik með einu marki, og tryggðu sér því 3-1 sigur í viðureigninni. Midnight Bulls eru komnir aftur á sigurbraut eftir að hafa tapað síðustu tveimur viðureignum sínum, en Panda Bois sitja enn í umspilssæti.

Næstu viðureignir Turf deildarinnar eru á morgun, þriðjudag, en þá mætast LAVA esports og oCtai Esports klukkan 18:40, og í kjölfarið mætast Þór Akureyri og Rafík. Allar viðureignir Turf deildarinnar eru sýndar í beinni útsendingu á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert