Ósáttur við vítaspyrnudóm: „Boltinn fór í magann á mér“

Valgeir Lunddal Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu.
Valgeir Lunddal Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/KSÍ

Valgeir Lunddal Friðriksson, landsliðsmaður í knattspyrnu, botnaði hvorki upp né niður í vítaspyrnudómi gegn sér þegar lið hans Häcken mætti Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Dómari leiksins mat það sem svo að Valgeir hafi fengið boltann í höndina innan vítateigs en hann sagði það af og frá, boltinn hafi farið í magann á sér.

„Það er ekki margt sem ég get sagt. Þetta var aldrei vítaspyrna. Dómarinn gerði mistök. Þannig er það bara. Boltinn fór í magann á mér, aldrei í höndina.

Ég var mjög pirraður og í miklu uppnámi eftir leikinn. Við gátum unnið leikinn en förum með núll stig heim.

Ég er mjög reiður. Ég ræddi við dómarann eftir leik og ég held að hann viti að hann hafi gert mistök,“ sagði Valgeir í samtali við Discovery+ Sport eftir leik.

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Valgeir og umrætt atvik, þar sem svo sannarlega virðist sem boltinn fari í maga hans þó handleggurinn fari upp í loftið.

Í sænsku úrvalsdeildinni er stuðst við VAR-dómgæslu en dómnum var þó ekki snúið við.

Djurgården skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnunni sem var dæmd á Valgeir og vann leikinn 1:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert