Innlent

Nauð­syn­legt að laga gufu­lögnina á ný til að geta haldið úti sund­kennslu

Atli Ísleifsson skrifar
Sundlaugin í Laugarskarði í Hveragerði þykir en fegursta sundlaug landsins.
Sundlaugin í Laugarskarði í Hveragerði þykir en fegursta sundlaug landsins. Hveragerðisbær

Bæjarráð Hveragerðisbæjar hefur falið Geir Sveinssyni bæjarstjóra að leita leiða til að lagfæra gufulögn sem liggur að Sundlauginni í Laugarskarði í bænum. Gufulögnin hefur lengi ekki annað notkuninni sem verður til þess að yfir kaldasta tímann á veturna er ekki nægur hiti á lauginni sem hefur orðið til þess að ítrekað hefur þurft að fella niður sundæfingar.

Bæjarráð tók fyrir áskorun frá sunddeild íþróttafélagsins Hamars á fundi sínum á mánudag þar skorað er á bæjaryfirvöld að bregðast við stöðunni.

Í erindinu kemur fram að sunddeild Hamars hafi í áratugi haldið úti starfsemi í Laugarskarði og eigi sér djúpar rætur í menningu og íþróttalífi Hvergerðinga.

„Sunddeildin hefur átt í verulegum erfiðleikum í gegnum árin við að halda úti starfsemi deildarinnar hér í Sundlauginni Laugarskarði. Vitað hefur verið að gufulögnin sem liggur að sundlauginni hefur ekki annað notkuninni sem verður til þess að yfir kaldasta tímann á veturna er ekki nægilegur hiti á sundlauginni, skólasund sem og sundæfingar falla því ítrekað niður,“ segir í erindinu.

Lagfæring síðasta vor dugði ekki til

Sundlaugin í Laugaskarði í Hveragerði var opnuð árið 1938, en húsið byggt 1963 eftir teikningu Gísla Halldórssonar arkitekts.

Ráðist var endurnýjun á gufulögninni, frá sundlaugarkari og að sundlaugarhúsi, og hún stækkuð síðasta vor. Þær breytingar virðast þó ekki hafa dugað til að laga hitastigið í lauginni.

„Það er vitað mál að til að laga þetta í eitt skipti fyrir öll verður að skipta út gufulögninni. Það er í raun forkastanlegt að við séum með eina af fallegustu sundlaugum landsins hér hjá okkur í Hveragerði en getum ekki nýtt okkur hana að fullu vegna annmarka á gufulögninni,“ segir í erindi sunddeildarinnar.

Leita leiða til að lagfæra gufulögnina

Ennfremur segir í bréfinu að það hafi valdið gríðarlegum erfiðleikum fyrir alla sundiðkun barna og fullorðinna í Hveragerði þegar sundlaugin verður óstarfhæf vegna kulda á veturna.

Líkt og fram kemur í fundargerð samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að ræða við bréfritara og leita leiða til að lagfæra gufulögnina.


Tengdar fréttir

Berjast fyrir fleiri klukku­tímum í Laugar­skarði

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði telja mikið ákall eftir því að opnunartími sundlaugarinnar í Laugarskarði verði lengdur. Málið er komið á borð menningar- og frístundafulltrúa bæjarins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×