Erlent

Leystu upp mótmæli gegn sóttvarnaaðgerðum í Berlín

Kjartan Kjartansson skrifar
Þýskir lögreglumenn ýtta mótmælendum til baka við Brandenborgarhliðið í Berlín í dag. Kallaður var til liðsauki lögreglumanna frá öðrum landshlutum til að takast á við mótmælin gegn sóttvarnaaðgerðum.
Þýskir lögreglumenn ýtta mótmælendum til baka við Brandenborgarhliðið í Berlín í dag. Kallaður var til liðsauki lögreglumanna frá öðrum landshlutum til að takast á við mótmælin gegn sóttvarnaaðgerðum. AP/Fabian Sommer/DPA

Lögreglumenn í óeirðarbúningum beittu háþrýstisdælum til þess að dreifa mótmælendum gegn sóttvarnaaðgerðum í Berlín í dag. Mótmælendurnir hunsuðu fyrirmæli um að þeir notuðu grímur og pössuðu upp á fjarlægðarmörk sín á milli.

AP-fréttastofna segir að lögreglumenn hafi forðast að úða vatni á beint á mannfjöldann vegna þess að börn voru á meðal mótmælendanna. Sumir mótmælendur opnuðu regnhlífar og reyndu að halda kyrru fyrir þar til þeir gáfust upp.

Einhverjir mótmælendanna köstuðu flugeldum, blysum og örðum hlutum að lögreglumönnum. Fleiri en hundrað manns voru handteknir og mun fleiri teknir höndum tímabundið. Níu lögreglumenn særðust, að sögn Thilo Cabiltz, talsmanns lögreglunnar í Berlín.

Sóttvarnaaðgerðir gegn kórónuveirufaraldrinum njóta almenns stuðnings í Þýskalandi en hávær minnihluti hefur staðið fyrir reglulegum mótmælafundum um allt landið. Þeir halda því fram að aðgerðirnar stangist á við stjórnarskrá. Sumir hafa gengið svo langt að líkja sóttvarnaaðgerðum við nasisma.

Þýska þingið samþykkti í vikunni frumvarp sem skýtur frekari lagastoð undir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, þar á meðal reglur um félagsforðun, grímuskyldu á opinberum stöðum og lokun verslana og samkomustaða til að hefta útbreiðslu veirunnar. Búist er við því að forseti staðfesti lögin í dag.

Um 833.000 manns hafa smitast af veirunni í Þýskalandi og fleiri en 13.000 hafa látið lífið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×