Sér eftir að hafa ekki keypt fyrirliða Liverpool

Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. AFP

Sir Alex Ferguson vildi kaupa Jordan Henderson, núverandi fyrirliða Liverpool, til Manchester United á sínum tíma en var ráðlagt að gera það ekki af læknateymi félagsins sem taldi miðjumanninn hafa óvenjulegt göngulag.

Henderson fór að lokum til Liverpool frá uppeldisfélagi sínu Sunderland sumarið 2011 og hefur síðan hjálpað liðinu að verða Evrópu- og Englandsmeistari undanfarin ár. „Við vorum tilbúnir að bjóða í Jordan Henderson, ég talaði við Steve Bruce og hann elskaði strákinn,“ sagði Ferguson í hlaðvarpi á vegum samtaka knattspyrnustjóra á Englandi.

„En læknateymið okkar mældi gegn því, þeir töldu hann hafa óvenjulegt göngulag sem gæti leitt til meiðsla. Ég vildi almennt ekki kaupa leikmenn nema þeir væru alltaf til taks. Við elskuðum Henderson sem leikmann og eftir allt sem hann hefur gert og þær sögur sem ég hef heyrt af honum þá virðist ég hafa misst af góðri manneskju,“ bætti Ferguson við.

Henderson mun að öllum líkindum vera á sínum stað á Anfield á morgun er erkifjendurnir mætast á Anfield. Liverpool tekur á móti toppliði Manchester United klukkan 16:30.

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, var um tíma í sigti Manchester …
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, var um tíma í sigti Manchester United. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert