Miðflokkurinn boðar oddvitakjör í Reykjavík

Miðflokkurinn hefur tekið þá ákvörðun að fara í svokallað oddvitakjör, …
Miðflokkurinn hefur tekið þá ákvörðun að fara í svokallað oddvitakjör, þar sem eingöngu er kosið um þá sem sóttust eftir fyrsta sætinu.

Stjórn Miðflokksins í Reykjavík hefur tekið ákvörðun um að boða til oddvitakjörs í Reykjavíkurkjördæmi suður eftir að tillaga uppstillingarnefndar að framboðslista flokksins í kjördæminu var felld á félagsfundi síðastliðinn fimmtudag.

„Listinn sem uppstillingarnefnd leggur fram er felldur af félagsmönnum og þar með er þetta úr höndum nefndarinnar og stjórn Reykjavíkur suður þarf að taka ákvörðun um hvað við gerum,“ segir Anna Björg Hjartardóttir, formaður Miðflokksfélags Reykjavíkur suður.

Anna segir nokkrar leiðir færar en til þess að gera þetta sem „handhægast fyrir alla um hásumar“ hafi verið tekin sú ákvörðun að fara í svokallað oddvitakjör, þar sem eingöngu er kosið um þá sem sóttust eftir fyrsta sætinu, og síðan á félagsfundi næstkomandi mánudag, þegar niðurstaðan er fengin, er listinn lagður fram sem ein heild til samþykktar félagsmanna.

Uppstillingarnefnd vill fara eftir vilja félagsmanna

„Þar sem það var enginn ágreiningur um listann í heild, aðeins oddvitasætið, verður aðeins kosið um það. Eins og komið hefur fram er þetta ekki varðandi Fjólu heldur stuðningsmenn Þorsteins varðandi það að hann er ekki með á listanum, eða ekki í fyrsta sæti,“ segir Anna.

„Þó svo að það standi að þetta sé ráðgefandi kosning þá er það vegna þess að það er ekki nógu mikill lagastuðningur við það, í lögum félagsins er ekkert nákvæmlega um þetta og þá er þetta kallað ráðgefandi en að sjálfsögðu er uppstillingarnefndin að fara eftir vilja félagsmanna um hvað þeir kjósa.“

Anna segir eingöngu þau nöfn koma til greina sem höfðu sóst eftir fyrsta sætinu áður en uppstillingarnefndin lagði listann fram. „Síðan vitum við auðvitað ekki hvort þeir sem sóttust eftir fyrsta sæti kæra sig nokkuð um að fara að taka þátt í þessari baráttu.

Hluti af ákvörðuninni er að þetta þurfi að geta gerst hratt, félagsmenn hafa föstudag og laugardag til þess að mæta upp í Hamraborg 1 og kjósa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert