Þrátt fyrir vaxtahækkanir að undanförnu greiða tæplega 75% heimila minna en 200 þúsund krónur á mánuði í vexti og afborganir fasteignalána og aðeins 14% heimila greiða meira en 250 þúsund krónur á mánuði. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki sem kom út í morgun. Sé bara horft til þess hóps sem tók nýtt lán frá og með janúar 2020 væru hlutföllin 68% og 17%.

Á móti vaxtahækkunum og hærra húsnæðisverði hafa laun hækkað töluvert og atvinnuleysi dregist saman sem bætir stöðu heimilanna.

Þá kemur einnig fram að hlutfall heimila á leigumarkaði sem telji húsnæðiskostnað íþyngjandi aldrei hafa verið lægri en á síðasta ári og hjá þeirra sem búi í eigin húsnæði sé við sögulegt lágmark ársins 2021.

Hlutfall heimila sem telja húsnæðiskostnað íþyngjandi.
© vb.is (vb.is)

Þá hefur mánaðarleg greiðslubyrði heimila mikils meirihluta heimila ýmist hækkað um um innan við 30 þúsund á mánuði, staðið í stað eða lækkað frá janúar 2020.  Hækkunin er meiri en 30 þúsund krónur á mánuði hjá rúmlega fjórðungi heimila, innan við 30 þúsund hjá um helmingi heimila og hjá tæplega fjórðungi hefur greiðslubyrðin staðið í stað eða lækkað.

Vanskilahlutfall útlána stóru bankanna til heimila hafi verið 0,7% í árslok 2022 sem teljist mjög lítið. „Greiningar bankanna á eigin lánasöfnum benda enn fremur til þess að aðeins lítill hluti lántakenda standist ekki greiðslumat miðað við hærri vexti,“ segir í ritinu.

Heimili sem sjái fram á greiðsluerfiðleika vegna nafnvaxtahækkana geti jafnframt gripið til ýmissa úrræða til að takmarka greiðslubyrði, t.d. með lánalengingum, endurfjármögnun óverðtryggðra lána í heild eða að hluta með verðtryggðum lánum eða jafnvel með því að óska eftir tímabundinni frystingu á greiðslum.

Dæmi sem væru tekin í fjölmiðlum af hækkandi greiðslubyrði vegna vaxtahækkana sýndu oft aðeins takmarkaðan hluta lántakenda. „Gjarnan eru tekin dæmi um einstakling eða hjón með 100% óverðtryggt fasteignalán á breytilegum vöxtum. Slík framsetning sýnir þó aðeins afmarkaðan hluta af raunveruleika íslenskra lántaka. Fjölmargir lántakar hafa blandað saman fasteignalánum með föstum og breytilegum vöxtum, verðtryggðum lánum og óverðtryggðum. Því hafa hækkanir meginvaxta Seðlabankans síðustu misseri aðeins haft áhrif á greiðslubyrði hluta þeirra fasteignalána sem neytendur eru með,“ segir í Fjármálastöðugleika.