Tveir sérfræðingar hafa bæst í hóp hugbúnaðarfyrirtækisins Sendiráðið, á sviði notendaupplifunar annarsvegar en verkefnastýringar hinsvegar.

Unnur Ösp Ásgrímsdóttir hefur verið ráðin sem yfirmaður stafrænnar notendaupplifunar hjá Sendiráðinu. Helstu verkefni Unnar verða að stýra ráðgjafateymi Sendiráðsins og aðstoða við innleiðingu á Design Thinking hugmyndafræðinni hjá samstarfsaðilum Sendiráðsins.

Unnur Ösp er með MSc. í verkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku og hefur gengt ýmsum störfum tengt notendaupplifun og nú síðast leiddi hún teymi á sviði notendaupplifunar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Tempo.

„Ég er spennt að koma inn í öflugt teymi hjá Sendiráðinu. Mín sýn er að þarfagreining og notendaupplifun séu lykilþættir í þróunarferli verkefna og fjárfesting í þeirri vinnu skilar sér margfallt til baka,“ segir Unnur Ösp.

Telma Hrönn Númadóttir, nýr verkefnastjóri hjá Sendiráðinu, er með MPM gráðu í Verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Áður en hún hóf störf hjá Sendiráðinu hefur Telma meðal annars unnið fyrir Activity Stream, Wuxi NextCode og Háskólann í Reykjavík. Meðal verkefna Telmu verður utanumhald og verkefnastýring á þeim fjölmörgu hugbúnaðarverkefnum sem Sendiráðið þróar fyrir samstarfsaðila sína.

„Ég tel að mín þekking og reynsla af bæði verkefna- og vörustýringu eigi eftir að skila sér vel til samstarfsaðila Sendiráðsins.“ segir Telma Hrönn.

„Það er mikill fengur að þessum liðstyrk enda búa þær yfir mikilli þekkingu á hugbúnaðarþróun og á sama tíma er ánægjulegt að bæta kynjahlutfall fyrirtækisins sem í dag er að fjórðungi konur. Lukkulega eru konur sífellt að færa sig meira inn á þetta svið og er okkar markmið að minnka kynjabilið enn frekar í nánustu framtíð,” er haft eftir Hrafni Ingvarssyni, framkvæmdastjóra Sendiráðsins, í fréttatilkynningu.