AC Milan steinlá á San Siro

Sassuolo-menn fagna einu af fimm mörkum sínum í dag.
Sassuolo-menn fagna einu af fimm mörkum sínum í dag. AFP/Miguel Medina

Ríkjandi Ítalíumeistarar AC Milan steinlágu fyrir Sassuolo á heimavelli sínum San Siro, 2:5, í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag.

Oliver Giroud hélt að hann hefði komið Mílanóliðinu yfir snemma leiks en VAR-sjáin dæmdi markið ógilt. Stuttu seinna komst Sassuolo tveimur mörkum yfir með þriggja mínútna millibili, með mörkum frá Gregoire Defrel og Davide Frattesi. 

Giroud minnkaði svo muninn í 2:1 tveimur mínútum eftir mark Frattesi en Sassuolo-menn svöruðu því jafnóðum en sex mínútum síðar, eða á 30 mínútu, voru þeir komnir með tveggja marka forystu á ný, 3:1, þökk sé marki frá Domenico Berardi. 

Sassuolo komst svo 4:1 yfir á annarri mínútu seinni hálfleiksins með marki frá Armand Laurienté af vítapunktinum. Ante Rebic minnkaði svo muninn en mark hans var einnig dæmt af og staðan var því óbreytt. 

Martröð Mílanómanna hélt einungis áfram því á 78. mínútu kom Matheus Henrique Sassuolo 5:1 yfir. Divock Origi minnkaði þó muninn aftur í þrjú mörk með glæsilegu marki tveimur mínútum síðar, 5:2, sem voru lokatölur. 

Þetta er annað stóra tap Milan í röð en um síðustu helgi tapaði liðið 0:4 fyrir Lazio. Meistararnir eru nú í fjórða sæti deildarinnar með 38 stig, en geta farið alla leið niður í það sjötta í lok dagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert