Ungverjaleikurinn tók mikið á okkur

Hannes ver skot í leiknum gegn Ungverjum í síðustu viku.
Hannes ver skot í leiknum gegn Ungverjum í síðustu viku. AFP

Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður í knattspyrnu vildi ekki staðfesta að 4:0 tapleikurinn gegn Englendingum í Þjóðadeild UEFA í kvöld hafi verið hans síðasti landsleikur.

„Ég veit það ekki. Framhaldið verður bara að koma í ljós. Ef það fer svo þá var þetta allavega góður tímapunktur. Á Wembley og að jafna vin minn hann Birki Kristins í leikjafjölda. Það verður bara að koma í ljós hvað gerist seinna,“ sagði Hannes í samtali við Stöð 2 Sport eftir leik.

Hann sagði leikmenn landsliðsins enn vera að jafna sig eftir sárt tap gegn Ungverjum í umspili um sæti á EM í síðustu viku. „Það eru mikið af tilfinningum í þessu núna. Við erum í rauninni ennþá að jafna okkur á því að hafa ekki komist á þetta Evrópumót og á þessu hörmulega tapi um daginn. Við erum að sleikja sárin eftir það. Það eru nokkrir mánuðir í næsta verkefni og það þarf að ráða þjálfara og svo framvegis.“

„Ég var að horfa á það að spila þetta Evrópumót og svo hefðum við séð til en núna er þetta ný staða. Við verðum bara að sjá til hvernig þetta þróast,“ bætti Hannes við.

Hann sagði leikmenn hafa upplifað mikinn tilfinningarússíbana eftir leikinn við Ungverja. „Já það má alveg segja það. Þessi Ungverjaleikur tók mjög á okkur. Það er búið að taka mikið á að rífa okkur aftur í gang. Ég tala allavega fyrir sjálfan mig en það er svolítið eins og maður hafi farið þetta á hnefanum eftir þann leik og tilfinningarnar eru svolítið að koma út núna.“

„Það er svekkelsi og alls konar og mögulega síðasti leikurinn hjá einhverjum sem hafa spilað saman lengi,“ sagði Hannes að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert