„Óbætanlegt tjón“

Eyvind Jørgensen Schumacher, bæjarstjóri í Ullensaker, kveður tjónið í Trandum-skóginum …
Eyvind Jørgensen Schumacher, bæjarstjóri í Ullensaker, kveður tjónið í Trandum-skóginum óbætanlegt, eftir að Forsvarsbygg varð þar á alvarleg handvömm og felldi 1.600 grenitré á friðuðu svæði þar sem ein af fyrstu fjöldagröfum þýska hernámsliðsins frá síðari heimsstyrjöldinni fannst vorið 1945, með jarðneskum leifum 173 Norðmanna, 15 Rússa og sex Breta. Ljósmynd/Aðsend

Sveitarfélagið Ullensaker, norðan við Ósló í Noregi, hyggst kæra Forsvarsbygg, stjórnsýslustofnun sem heyrir undir varnarmálaráðuneytið, fyrir það sem Eyvind Jørgensen Schumacher, bæjarstjóri í Ullensaker, kallar „óbætanlegt tjón“ á friðuðum menningarminjum í Trandum-skóginum þar í sveitarfélaginu.

Forsvarsbygg, sem hefur með höndum byggingu, rekstur og viðhald fasteigna norska hersins, en annast auk þess ýmiss konar framkvæmdir á vegum hins opinbera, réðst í það verkefni á vordögum, að ryðja hluta Trandum-skógarins, ein 1.600 grenitré sem mörg hver voru dauð, uppþornuð og farin að vera háskaleg vegfarendum um skóginn.

Skipuleggjendum Forsvarsbygg yfirsást hins vegar að svæðið sem þeir létu ryðja var friðaður minningarlundur þar sem ein fyrsta fjöldagröf fórnarlamba þýska hernámsliðsins fannst, í maí 1945. Þar hafði árabilið 1941 – 1944 verið aftökustaður nasista og þýska SS-böðulsins og lögfræðingsins Oscar Hans, sem alls var ábyrgur fyrir aftöku 312 Norðmanna á árum síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar Noregur var undir járnhæl þýsks hernámsliðs, þar af 78 án undanfarandi réttarhalda.

Hér liggja nokkur þeirra 1.600 grenitrjáa, sem Forsvarsbygg felldi, í …
Hér liggja nokkur þeirra 1.600 grenitrjáa, sem Forsvarsbygg felldi, í valnum. Mörg tré á svæðinu voru dauð, uppþornuð og að falli komin og var öryggi vegfarenda teflt í tvísýnu að mati stofnunarinnar sem einkum annast fasteignir hersins. Ljósmynd/Sveitarfélagið Ullensaker

Í fjöldagröfinni í Trandum-skóginum, sem skiptist í nokkrar grafir, hvíldu 194 fórnarlömb Hans, 173 Norðmenn, 15 Rússar og sex Bretar, en lík þeirra voru fjarlægð og lögð til hinstu hvílu í vígðri mold sumarið 1945 og voru ákærðir stríðsglæpamenn sem fylgt höfðu norska landráðamanninum Vidkun Quisling og þjóðernisflokki hans, Nasjonal Samling, sóttir í fangelsið við Møllergata 19 í Ósló og látnir draga lík landa sinna upp úr gröfunum, en Quisling sjálfur sat í því fangelsi fram í júlí 1945.

„Hér hefur óbætanlegt tjón verið unnið á svæðinu og dagljóst að [Forsvarsbygg] þarf nú að taka á sig þunga ábyrgð á því að bæta hér úr og koma svæðinu í það horf á nýjan leik, sem sveitarfélagið og þjóðin verðskulda og ekki síst þeir 194 sem hér voru teknir af lífi,“ segir Schumacher við norska dagblaðið VG.

Fangar úr fangelsinu við Møllergata 19 í Ósló, sem biðu …
Fangar úr fangelsinu við Møllergata 19 í Ósló, sem biðu dóms fyrir stríðsglæpi og landráð, færðir á vettvang 16. júní 1945, en þeim var gert að grafa lík Norðmanna, Rússa og Breta upp úr fjöldagröfunum eftir aftökur SS-böðulsins Oscar Hans sem slapp við dauðadóm í Noregi en hlaut síðar 15 ára dóm fyrir breskum herrétti í Hamborg. Ljósmynd/NTB

Jan Erik Johansen, deildarstjóri hjá Forsvarsbygg, leggst flatur í afsökunarbeiðni, sem stofnun hans birtir í fréttatilkynningu, og kveður „alvarleg menningarminjaleg mistök“ hafa átt sér stað áður en framkvæmdirnar í skóginum hófust.

„Eftir vettvangsferð í Trandum-skóginum í dag [á föstudaginn] og fund með Eyvind Jørgensen Schumacher, bæjarstjóra í Ullensaker, játum við að gerð voru alvarleg mistök af hálfu Forsvarsbygg þegar grenitré voru höggvin niður. Afleiðingar gjörða okkar eru að skógur var ruddur þar sem ekki átti að ryðja. Tjónið er alvarlegt og þykir okkur það mjög miður og biðjumst innilega velvirðingar,“ er haft eftir Johansen í tilkynningunni.

Kveður hann Forsvarsbygg nú munu takast á hendur það verkefni að koma svæðinu í það ástand sem sveitarfélagið geti unað við, sem Schumacher bæjarstjóri segist meta við stofnunina, en hann ætli þó engu að síður að leggja kæruna fram.

Grunaðir stríðsglæpa- og landráðmenn, sumir hverjir flokksbræður Vidkun Quisling í …
Grunaðir stríðsglæpa- og landráðmenn, sumir hverjir flokksbræður Vidkun Quisling í norska þjóðernisflokknum Nasjonal Samling, bera jarðneskar leifar fórnarlamba innrásarhersins í Trandum-skóginum í júní 1945. Ljósmynd/NTB

Norðmenn réttuðu yfir SS-foringjanum Oscar Hans eftir að Noregur losnaði úr klóm þýska hernámsliðsins vorið 1945 og hlaut hann dauðadóm fyrir Lögmannsrétti Eiðsifjaþings snemma árs 1947 sem áfrýjað var til Hæstaréttar þar sem kveðinn var upp sýknudómur yfir böðlinum vegna skorts á sönnunargögnum og honum í kjölfarið vísað úr landi. Í Þýskalandi var hann hins vegar handtekinn á ný og dreginn fyrir breskan herrétt í Hamborg fyrir aftöku sex Breta í Trandum-skóginum. Þar hlaut hann 15 ára dóm árið 1948, en var sleppt úr haldi árið 1954, hvarf eftir það og finnast engar áreiðanlegar heimildir um dánardag Hans, sem fæddur var í Lothringen árið 1910.

VG

VGII (sveitarfélagið boðar kæru)

Romerikes Blad (læst áskriftarefni)

Eidsvoll Ullensaker Blad (læst áskriftarefni)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert