Danir hitti ekki fleiri en tíu

Þetta tilkynnti Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi rétt í …
Þetta tilkynnti Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi rétt í þessu. AFP

Frá og með mánudegi verða samkomutakmarkanir í Danmörku miðaðar við tíu manns, en metfjöldi smita greindist í landinu síðasta sólarhring, eða 859 ný smit. Þá ber íbúum Danmerkur að takmarka samgang sinn við tíu manns utan heimilisins.

Þetta tilkynnti Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi rétt í þessu.

Þá verður öll sala áfengis bönnuð eftir klukkan 22 frá og með mánudeginum, en áfram ber veitingastöðum að loka klukkan 22. Nú geta gestir öldurhúsanna hins vegar ekki haldið leiðar sinnar í næstu verslun til þess að kaupa áfengi fyrir áframhaldandi skemmtanahöld utandyra eða í heimahúsum, eins og tíðkast hefur til þessa.

Loks verður grímuskylda hert frá og með 29. október, til þess að gefa fólki rými til þess að byrgja sig upp af grímum, en frá og með þeim degi verður fólki skylt að bera grímur á öllum opinberum stöðum innanhúss, svo sem í verslunum, kvikmyndahúsum og sjúkrahúsum. Hingað til hafði grímuskylda verið í gildi í almenningssamgöngum, sem og á börum og veitingastöðum, þar sem þó er heimilt að taka grímuna af þegar fólk er sest niður.

Þá tilkynnti Frederiksen að þær takmarkanir sem eru í gildi núna, þar eð 50 manna samkomutakmarkanir, lokun veitingahúsa klukkan 22 og framangreind grímuskylda, skyldi gilda til 2. janúar hið minnsta, eða út árið.

Þær takmarkanir sem tilkynntar voru í dag og hefjast á mánudag gilda í fjórar vikur, þar til annað verður tilkynnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert