Vissum að þetta yrði erfitt

Arnar Þór Viðarsson
Arnar Þór Viðarsson Ljósmynd/Robert Spasovski

„Maður er aldrei glaður eftir tap en þetta var leikur á móti ógnarsterkum andstæðingi sem við vissum. Suður-Kórea er með lið sem hefur spilað lengi saman og við vissum að þetta yrði erfitt,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, á blaðamannafundi eftir 1:5-tap fyrir Suður-Kóreu í vináttuleik í Tyrklandi í dag.

„Það var mikil áskorun að spila á móti svona liðum en við viljum spila á móti svona liðum. Þótt þetta sé áskorun og hlaup þá fáum við í þjálfarateyminu bara svör við ákveðnum spurningum,“ bætti Arnar við.

Margir leikmenn stigu sín fyrstu skref með A-landsliðinu í verkefninu og Arnar var ánægður með þeirra innkomu. „Við erum að leita að svörum en við gátum ekki búist við því að tíu leikmenn myndu stíga upp og verða strax A-landsliðsmenn. Ég er samt ánægður með ákveðna leikmenn og þau svör sem ég fékk. Mikilvægasta skrefið sem við þurfum að taka er inn á vellinum og það eru nokkrir leikmenn sem ég hef verið mjög ánægður með.“

Hákon Rafn Valdimarsson lék allan leikinn í marki Íslands og varði vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Hann gat lítið gert við mörkunum fimm. Mér líst vel á hann. Við sáum hann og Jökul í þessu verkefni og báðir gjaldgengir í 21 árs liðið. Við skiptum í hálfleik í Úganda en við lentum í smá veseni í dag og gátum það ekki í dag. Við eigum marga unga og efnilega markmenn sem eru að taka góð skref,“ sagði Arnar Þór Viðarsson.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert