Ekki meira fjármagn í bili

Íslandspóstur býður nú sömu gjaldskrá fyrir allt landið.
Íslandspóstur býður nú sömu gjaldskrá fyrir allt landið. Eyþór Árnason

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir nefndina ekki geta veitt Íslandspósti aukið fjármagn fyrr en skýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um áhrif nýrra póstþjónustulaga á starfsemi fyrirtækisins liggur fyrir. Hann segir ummæli Hrafnkels Gíslasonar, forstjóra PFS, um að boltinn sé hjá fjárlaganefnd þar til niðurstaða liggur fyrir, vera „áhugaverð“.

„Það er þeirra að meta alþjónustuþörfina og kostnaðinn sem fylgir. Fjárlaganefnd getur í sjálfu sér ekkert ákveðið gagnvart þeim þætti fyrr en það liggur fyrir,“ segir Willum í samtali við mbl.is.

Hann segir myndarlega hafa verið tekið á málum Íslandspósts frá upphafi, síðan byrjað var með aukningu hlutafjár, og að reynt hafi verið að verja reksturinn eftir fremsta megni. „Við kölluðum eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda og við höfum farið mjög vel yfir þessa þætti.“

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Þið bíðið þá bara eftir niðurstöðu PFS?

„Já, en við erum búin að halda ótal fundi og fylgja eftir skýrslu ríkisendurskoðanda um [Íslandspóst] og allar ráðstafanir og fjárhagslega endurskipulagningu, og við höldum því áfram,“ segir Willum. „Niðurstaðan fæst í janúar, það er alveg skýrt þar sem ég er búinn að kalla eftir því.“

Hefur þú einhverja skoðun á núverandi fyrirkomulagi póstþjónustu hér á landi?

„Ég held að það hafi bara verið farin sú eina leið sem hægt var að fara. Annað væri ekki hægt, og svo verða menn auðvitað að meta þetta. Félagið hefur gert ýmislegt til að fara út af samkeppnismarkaði í öllu öðru en að dreifa pósti, og gert vel í því. En það sem eftir stendur er auðvitað þetta sem birtist núna og var ákveðið á Alþingi, að eitt verð skuli gilda fyrir alla landsmenn. Menn eru að hanna gjaldskrána eftir því.“

Viðtal við Hrafnkel Gíslason, forstjóra PFS, var birt í Morgunblaðinu á þriðjudag og má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka