Segir flugmanninn í flugi Sala hafa verið óhæfan

Emiliano Sala lést í flugslysi í byrjun ársins 2019.
Emiliano Sala lést í flugslysi í byrjun ársins 2019. AFP

David Henderson réði flugmann sem var hvorki hæfur né fær um að fljúga flugvélinni sem átti að flytja knattspyrnumanninn Emiliano Sala frá Frakklandi til Cardiff í Wales að mati saksóknara.

Argentínumaðurinn Sala lést ásamt David Ibbotson sem flaug flugvélinni þegar hún brotlenti í janúar árið 2019.

Henderson átti sjálfur að fljúga með Sala en gat það ekki þar sem hann var í fríi með konu sinni í París.

Hann bað hins vegar kunningja sinn Ibbotson um að fljúga með Sala frá Nantes, þaðan sem hann var keyptur til Cardiff, þrátt fyrir að Ibbotson væri ekki með atvinnuflugmannsleyfi.

Saksóknarinn Martin Goudie sagði fyrir rétti í á mánudag að Ibbotson hafi ekki verið hæfur til að fljúga í því vonda veðri sem Henderson hafi vitað að væri búið að spá þann 21. janúar 2019, þegar vélin brotlenti í sjónum í grennd við England.

Henderson hafi einnig hunsað ákveðnar kröfur í tengslum við flugið og hafi ekki skipulagt flugin fram og til baka með hag Sala og Cardiff í huga heldur vegna viðskiptahagsmuna.

Henderson hafnar því að hafa stefnt flugvélinni í hættu með ákvörðunum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka