Ástarsorgin skilaði allavega einhverju

Kristín Sesselja Einarsdóttir tónlistarmaður var að gefa út plötuna Breakup …
Kristín Sesselja Einarsdóttir tónlistarmaður var að gefa út plötuna Breakup Blues.

Tónlistarmaðurinn Kristín Sesselja Einarsdóttir er nýútskrifuð úr menntaskóla í Noregi og er að gefa frá sér plötu í dag, Breakup Blues. Íslendingar kynntust henni fyrst opinberlega þegar hún tók þátt í Ísland Got Talent 2016 en þá var hún 16 ára og meðlimur í hljómsveitinni Kyrrð. 

„Ég byrjaði að semja lög þegar ég var 12 ára og byrjaði í rauninni strax að dreyma um að vera risa poppstjarna og spila fyrir fleiri hundrað þúsund manns. Ég man ekki hvenær ég tók hina praktísku ákvörðun um að sækjast eftir því að vera tónlistarkona. Ég gaf út EP plötu árið 2017 að nafninu „Freckles“ með fimm lögum þar sem ég spilaði á gítar og söng. Þegar ég gaf hana út fannst mér bara svo kúl að vera með tónlist á Spotify. Ætli það hafi ekki verið svona einu ári seinna þar sem ég hugsaði að þetta væri ekki bara áhugamál heldur það sem ég vildi mest gera í lífinu. Það tók mig tíma að þora að taka ákvörðunina um að fylgja ekki hefðbundinni atvinnugrein og að ákveða að ætla að verða tónlistarkona,“ segir Kristín Sesselja. 

Hvað gerðir þú til þess að láta drauma þína rætast? 

„Það var bara mikil vinna. Öll þessi ár að semja tónlist komu mér á þann stað sem ég er í dag. Hinsvegar byrjaði tónlistin að fara á flug þegar ég fór á LungA árið 2019 og kynntist Baldvini Hlynssyni sem pródúserar tónlistina. Það sem mér fannst erfitt fyrir það var einmitt hvernig ég gæti tekið lögin mín á næsta stigið og mér fannst mig vanta pródúsent til þess. Það var því ákveðin heppni að hitta Baldvin þar sem við vinnum mjög vel saman og okkar hugmyndir samanlagt gera tónlistina jafn góða og hún er.

Svo er það bara ótrúlega mikil vinna, bæði að gera tónlist og að gefa hana út, miklu meira en mig grunaði. Þetta er ekki bara eitthvað sem gerist yfir nótt heldur er þetta mikil mikil vinna sem skilar svo vonandi árangri í lokin.“

Þú tókst þátt í Ísland Got Talent 2016. Hjálpaði það sér eitthvað?

„Ég tók þátt með hljómsveitinni Kyrrð árið 2016. Við vorum að gera allt öðruvísi tónlist heldur en ég geri núna en þetta var klárlega frábært tækifæri til að komast sér á framfæri og 16 ára ég var klárlega að láta drauminn sinn rætast. Ég lærði allskonar um sviðsframkomu, að koma fram í viðtali og bara um bransann almennt. Ég veit um annað tónlistarfólk sem kannski skammast sín fyrir sína framkomu í þessum þætti en ég myndi aldrei vera neitt annað en þakklát fyrir þetta tækifæri sem ég fékk á sínum tíma,“ segir hún. 

Hvernig hefur þú náð að sinna tónlistinni og náminu samhliða? 

„Ég útskrifaðist úr alþjóðlegum menntaskóla í Noregi núna í mars þannig öll platan mín Breakup Blues var unnin þegar ég var í námi. Ég þurfti oft að velja á milli þess að læra eða að fara að vinna í tónlist en yfirhöfuð gekk það bara vel. Ég hef alltaf verið fljót að læra þannig það var ekkert svo erfitt,“ segir Kristín Sesselja sem flutti til Noregs til þess að breyta um umhverfi og prófa eitthvað nýtt. Um er að ræða heimavistarskóla sem er skammt frá Bergen og bjó hún þar í um það bil tvö ár. 

Hvað drífur þig áfram í tónlistinni? 

„Það er í raun tvískipt. Þegar það kemur af því að semja lög eru það reynslur mínar í lífinu sem drífa mig áfram. Það er í raun smá þerapía í því fyrir mig. Svo finnst mér það líka ótrúlega gaman. Það sem drífur mig áfram í að koma mér á framfæri er það að ég hef ótrúlega mikla trú á tónlistinni sem ég er að gefa út og vil rosalega mikið að fólk hlusti á hana. Ég nenni ekki að efast um möguleikana sem eru fyrirborði, ég held að það gefi mér líka mikið sjálfstraust bara í lífinu að trúa á það sem ég er að gera og fylgja því eftir.“

Hver er fyrirmynd þín í lífinu? 

„Taylor Swift. Ég hef alltaf dregið mikinn innblástur frá hennar lífi og tónlist og ég bara dýrka hana.“

Þegar platan berst í tal segir Kristín Sesselja að hún sé mjög persónuleg. 

„Platan Breakup Blues er mjög persónuleg, í rauninni bara eins og ein löng dagbókarfærsla. Hún fjallar að mestu leiti um ástarsorg og allar þær tilfinningar sem koma fram við að ganga í gegnum það. Ég samdi lögin fyrir rúmu ári síðan en að gera það var mjög hjálplegt við að díla við það sem ég var að ganga í gegnum. Ég samdi alveg rosalega mikið af lögum á þessum tíma en þessi sex lög á plötunni ná að segja söguna á eins góðum og stuttum tíma og hægt er. Hlustendur ættu að hlusta á hana í réttri röð því þá kemur sagan í ljós. 

Þrátt fyrir að vera um ástarsorg endar platan í fallegum nótum þar sem ég tala um mikilvægi vináttunnar og þess að finna hamingjuna á ný. Ég samdi öll lögin á plötunni en Baldvin Hlynsson útsetti hana. Ég útsetti líka tvö lög á plötunni með honum, Breakup Blues og What Would I Do Without You?“

Hvernig ertu að díla við lífið í kórónuveirunni? 

„Ég er að díla við það eins vel og hægt er. Ég þurfti að útskrifast snemma og koma heim frá Noregi miklu fyrr en ég vildi sem var ákveðið sjokk og tók svolítinn tíma að komast yfir. Ég er hinsvegar búin að ná lífi mínu á Íslandi á strik þannig þetta hefur ekki mikil áhrif á mig.“

Hefur þú fundið mikið fyrir veirunni? 

„Eiginlega bara eins og flestir. Maður missir af tækifærum sem maður þarf bara að sætta sig við en vonandi stöndum við bara öll saman, fylgjum reglunum og klárum þetta sem fyrst!“

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Ég verð að prómótera plötuna auk þess að vinna í nýju efni eins og við Baldvin erum alltaf að gera. Svo er ég að vinna í frístund í Vatnsendaskóla sem mér finnst mjög skemmtilegt starf!“ 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson