ÍBV með forskot á toppnum

Birna Berg Haraldsdóttir var markahæst hjá Eyjakonum.
Birna Berg Haraldsdóttir var markahæst hjá Eyjakonum. mbl.is/Árni Sæberg

Birna Berg Haraldsdóttir var markahæst hjá ÍBV þegar liðið vann öruggan sigur gegn KA/Þór í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Vestmannaeyjum í frestuðum leik úr 15. umferð deildarinnar í dag.

Leiknum lauk með fimm marka sigri ÍBV, 28:23, en Birna Berg skoraði sjö mörk í leiknum.

Eyjakonur byrjuðu leikinn af miklum krafti, náðu strax þægilegu forskoti, og leiddu með níu mörkum í hálfleik, 18:9.

Akureyringum tókst að laga stöðuna á síðustu tíu mínútum leiksins en sigur ÍBV var aldrei í hættu.

Marta Wawrzykowska varði 12 skot í marki ÍBV og var með 30% markvörslu en Nathalia Soares Baliana var markahæst hjá KA/Þór með átta mörk.

ÍBV er með 34 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur tveggja stiga forskot á Val en KA/Þór er í sjötta sætinu með 12 stig líkt og Haukar.

Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 6, Sunna Jónsdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 3, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Amelía Einarsdóttir 2, Karolina Olszowa 2, Ingibjörg Olsen 1.

Varin skot: Marta Wawrzykowska 12, Ólöf Maren Bjarnadóttir 3.

Mörk KA/Þórs: Nathalia Soares Baliana 8, Ida Margrehe Hoberg 4, Rut Jónsdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 3, Sunna Katrín Hreinsdóttir 2, Agnes Vala Tryggvadóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Kristín A. Jóhannsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka