Funda í Hafnarfirði vegna mögulegrar gasmengunar

Margir skjálftanna hafa átt upptök sín við Fagradalsfjall á Reykjanesi.
Margir skjálftanna hafa átt upptök sín við Fagradalsfjall á Reykjanesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum, eins og önnur sveitarfélög á svæðinu, með okkar neyðarstjórn á vaktinni en fylgjum fyrirmælum og leiðbeiningum almannavarna eins og þær birtast á hverjum degi,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, í samtali við mbl.is um undirbúning í bæjarfélaginu ef til eldgoss kæmi á Reykjanesskaga.

Samkvæmt hraunflæðilíkani er talið líklegast, ef af gosi verður, að það verði á svæði við Fagradalsfjall og Keili þar sem flestir skjálftar hafa orðið síðustu daga. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, tók þó fram í samtali við mbl.is í dag að ólíklegt væri að gos, eða gas sem losnaði úr læðingi, myndi ógna byggð.

„Það er verið að funda með heilbrigðisfulltrúum á svæðinu vegna mögulegrar gasmengunar,“ segir Rósa en tekur fram að erfitt sé að gera áætlanir fram í tímann meðan óvissan er svo mikil. „En það eru til áætlanir á svæðinu,“ bætir hún við.

Varðandi það hvort grípa þyrfti til ráðstafana í Hafnarfirði vegna umferðar í gegnum bæinn ef rýma þyrfti byggð á Reykjanesi tekur Rósa fram að það væri á forræði lögreglu og almannavarna.

„Það er talið að það séu mjög lítlar líkur á því að það þurfi að koma til rýmingar. En komi til þess að það þurfi að stýra umferð þá er það lögreglan og almannavarnir sem munu móta stefnu og gefa fyrirskipanir um það. Þangað til erum við í góðu samstarfi og fylgjum með,“ bætir hún við.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert