FH-ingar biðu í 62 daga eftir deildarsigri

Dagur Dan Þórhallsson lyftir boltanum inn í teig á Kaplakrikavelli …
Dagur Dan Þórhallsson lyftir boltanum inn í teig á Kaplakrikavelli í kvöld. mbl.is/Sigurður

FH vann sinn fyrsta deildarsigur síðan 17. maí er liðið lagði Fylki að velli í Hafnarfirðinum í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í kvöld, 1:0, þökk sé sigurmarki Stevens Lennons.

Heimamenn voru nokkrum sinnum nálægt því að taka forystuna í fyrri hálfleik. Steven Lennon var hetja FH er hann skoraði bæði mörk liðsins í sterkum 2:1-útisigri gegn Sligo Rovers á Írlandi á dögunum en hann var hálfgerður skúrkur framan af í kvöld. Skotinn fékk tvö dauðafæri í byrjun leiks en í bæði skiptin varði Aron Snær Friðriksson frá honum í marki Fylkis. Þá fékk Jónatan Ingi Jónsson sömuleiðis tvö afbragðsfæri en hitti boltann illa í bæði skiptin og kom knettinum ekki á markið. Þótt FH-ingar hafi unnið síðustu tvo Evrópuleiki sína, gegn Sligo Rovers, þá var liðið ekki búið að vinna í deildinni síðan í maí.

Aron Snær var svo ekki hættur að verja eftir hlé en hann stöðvaði þrumuskalla frá Jónatani Inga af stuttu færi snemma í síðari hálfleik með frábærri vörslu. Gunnar Nielsen var svo ekki síður sprækur í marki heimamanna, varði nokkrum sinnum vel. Ásgeir Eyþórsson átti skalla af stuttu færi og þeir Arnór Borg Guðjohnsen og Orri Hrafn Kristjánsson fengu báðir fín færi sem Nielsen sá við.

Þar kom svo loks að eitthvað gaf eftir. Baldur Logi Guðlaugsson átti þá fyrirgjöf frá vinstri eftir að Björn Daníel Sverrisson hóf sóknina með góðu hlaupi fram völlinn. Jónatan Ingi tók boltann hægra megin í teignum og tíaði upp Lennon sem skoraði af stuttu færi. Fylkismenn reyndu að kreista fram jöfnunarmark á lokakaflanum en tilraunir þeirra voru máttlausar og FH-ingar nældu í stigin þrjú.

Ef þú ert kaldur þá ertu kaldur

Steven Lennon bætti upp fyrir mistök fyrri hálfleiksins með því að skora sigurmarkið og tryggja FH-ingum kærkomin stig. Hafnfirðingar unnu Fylki, ÍA og HK ásamt því að gera jafntefli við Val í fyrstu fjórum leikjum sínum. Síðasti sigurinn var gegn HK í Kórnum 17. maí síðastliðinn en síðan þá var liðið búið tapa fimm og gera tvö jafntefli og hreinlega farið að sogast ofan í fallbaráttuna.

Leikurinn í kvöld var kannski í ágætis takti við erfitt gengi beggja liða undanfarið, þó FH-ingar hafi að vísu unnið tvo sigra í Sambandsdeild Evrópu nýlega. Bestu menn vallarins voru markverðirnir, Aron Snær Friðriksson var frábær í marki Fylkis og Gunnar Nielsen kom sömuleiðis heimamönnum nokkrum sinnum til bjargar og var valinn maður leiksins af FH-ingum.

FH skaust aðeins upp töfluna með sigrinum, er nú með 15 stig í 6. sæti deildarinnar eftir 12 leiki en Fylkir er í 7. sæti með 14 stig og hefur spilað 13 sinnum.

FH 1:0 Fylkir opna loka
90. mín. Fylkir fær hornspyrnu Nielsen kýlir boltann frá marki. Fylkismenn koma í aðra sókn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert