Skrásetningargjöld verða ekki hækkuð

Rebekka Karlsdóttir, forseti stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Rebekka Karlsdóttir, forseti stúdentaráðs Háskóla Íslands. Samsett mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, staðfesti það á samráðsfundi stúdenta í gær að skrásetningargjöld Háskóla Íslands yrðu ekki hækkuð á vorþingi.

„Það auðvitað gleður mig að sjá að hagsmunabaráttan er að ná árangri,“ segir Rebekka Karlsdóttir, forseti stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Rebekka segist hafa spurt ráðherra út í málið á reglulegum samráðsfundi stúdenta en á þeim fundum fær forsvarsfólk allra stúdentahreyfinga á landinu tækifæri til að koma fyrirspurnum sínum á framfæri til ráðherra háskólamála.

„Á fundinum í gær fylgdi ég eftir þeim spurningum sem við afhentum fyrir utan ráðherrabústaðinn,“ segir hún og vísar þá til þess þegar stúdentar gengu fylktu liði að ráðherrabústaðnum fyrr í mánuðinum til þess að krefjast svara um fjárhagsstöðu skólans.

Áslaug var þó ekki viðstödd þar sem hún var erlendis.

„Þetta var semsagt svarið sem ég fékk við spurningunni – að skrásetningargjald yrði ekki hækkað núna á vorþingi.“

Halda orrustunni áfram

Skrásetningargjaldið mun því enn vera 75.000 krónur en Rebekka segir stúdentaráð ekki ætla að leggja vopnin frá sér. Hún segist vilja að gjaldið verði endurskoðað með tilliti til lækkunar eða afnáms.

„Baráttan er ekkert búin. Það er alltaf þessi umræða sem kemur annað slagið um hækkun gjaldanna, því miður.“ segir hún.

„Og þess vegna viljum við að gjaldið verði tekið til endurskoðunar, af því að við efumst um réttmæti þess og lögmæti kostnaðarleiðanna að baki gjaldinu.“

„[Gjaldið] er margfalt hærra en þekkist á norðurlöndunum og er talsvert skerðingaraðgengi að námi. Við teljum þetta ekki standast lög um opinbera háskóla. Það náttúrulega gengur ekki að opinber stofnun sé að rukka okkur um þjónustugjald sem er vafi á hvort standist lög.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert