Vilja gjarnan sjá tillögur sem storka

Breiðin. Svæðið gæti orðið eftirsóknarvert til búsetu og suðupottur fyrir …
Breiðin. Svæðið gæti orðið eftirsóknarvert til búsetu og suðupottur fyrir skapandi starfsemi og frumkvöðla í einstakri náttúru á Akranesi. Ljósmynd/Akraneskaupstaður

„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem Akraneskaupstaður og Brim eru að fara í saman,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, um fyrirhugaða uppbyggingu á Breið á Akranesi. Auglýst hefur verið opin hugmyndasamkeppni um skipulag svæðisins, en Breiðin tekur til vestasta hluta Akraness í nálægð hafnar og miðbæjar. Um er að ræða alls um 16 hektara svæði, og eiga Brim hf. og Akraneskaupstaður um 90% af svæðinu, en hlutur Brims er töluvert stærri.

Miklir möguleikar til framtíðar

Í kynningu á samkeppninni segir að svæðið bjóði upp á tækifæri til metnaðarfullrar þróunar sem yrði einstök á landsvísu. Nýsköpun, stafræn þróun, sjálfbærni og græn orka myndi leggja grunn að skipulagi sem yrði einstakt og leiðandi inn í nýja tíma og krefjandi áskoranir. Svæðið yrði eftirsóknarvert til búsetu og suðupottur fyrir skapandi starfsemi og frumkvöðla í einstakri náttúru og haftengdu bæjarumhverfi, segir í kynningunni.

Spurður hvernig hann sjái fyrir sér Breiðina eftir um áratug segir Sævar Freyr að um sé að ræða sögulega mikilvægt svæði fyrir Akraneskaupstað, en um leið náttúruperlu sem í raun sé alltof lítið notuð. Þarna séu miklir möguleikar á að skapa atvinnu til framtíðar fyrir Skagamenn.

„Ég sé fyrir mér að þarna gætu verið í bland íbúðabyggð sem teygði sig aðeins inn á Breiðina og svo skapandi atvinnustarfsemi. Þarna gæti verið hátæknirými, nokkurs konar afsprengi af því sem við byrjuðum að byggja upp í fiskvinnsluhúsinu á Breiðinni fyrir um ári, en þar starfa nú um 100 manns. Þarna gæti líka verið afþreyingartengd ferðaþjónusta og því ekki að láta sig dreyma um yfirbyggðan vatnsleikjagarð eða heilushótel með glæsilegu útsýni í átt að Snæfellsnesi og stórkostlegri sjósundsaðstöðu?

Það eru ýmsir möguleikar þarna í nágrenni við ægifagra náttúruna. Við förum opin inn í þessa hugmyndasamkeppni og viljum leyfa færustu hönnuðum landsins og jafnvel víðar að að glíma við verkefnið. Gjarnan að storka einhverjum hugmyndum um það hvað getur verið þarna,“ segir Sævar Freyr.

Mannvirki með sögulegt gildi

Hann segir að vinna við deiliskipulag taki við af hugmyndsamkeppninni. Spurður hvort lóðir verði seldar og hvernig staðið verði að uppbyggingunni segir hanns að það sé síðari tíma ákvörðun.

Skilafrestur tillagna í samkeppninni er til 29. apríl. Formaður dómnefndar er Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, en í nefndinni sitja einnig fulltrúar Akraness og arkitektar. Niðurstaða dómnefndar mun liggja fyrir í júní.

mbl.is

Á Breiðinni eru mannvirki frá ýmsum tímum og segir Sævar Freyr að hugað verði að því að hlúa að og vernda verðmæt eldri mannvirki, sem sum hver hafi mikið sögulegt gildi. Yngri mannvirki, sem sum hver séu notuð sem lagerhúsnæði, gætu hins vegar vikið. Koma verði í ljós hvaða byggingar verði notaðar og hverjar ekki.

Í kynningu á samkeppninni segir í kafla um varðveislugildi húsa og mannvirkja: Hús á Breiðinni bera merki þeirrar starfsemi sem þar þróaðist á liðnum 100 árum. Elsta húsið, sem er hluti af Breiðargötu 8, byggði Thor Jensen árið 1895 sem tvílyfta vörugeymslu en húsið var um aldamótin 1900 m.a. notað undir fyrstu skipulögðu líkamsrækt á Akranesi. Síðar var þar niðursuðuverksmiðja HB & Co. Húsið er tvílyft timburhús og hefur mikið varðveislugildi.

Í sama klasa húsa er bygging sem Haraldur Böðvarsson byggði árið 1916 og hýsti skrifstofur Haraldar Böðvarssonar & Co. Það hús hefur einnig mikið varðveislugildi.

Aðrar fasteignir sem eru yngri og eiga að falla inn í nýtt skipulag eru: Bíóhöllin (Vesturgata 27) byggð árið 1942 af Haraldi Böðvarssyni og gefin Akraneskaupstað. Þar hefur farið fram merkileg menningarstarfsemi, kvikmyndasýningar, tónleikar og ekki síst starfsemi leikfélaga (Skagaleikflokkurinn) sem starfandi hafa verið á Akranesi.

Húsið á Bárugötu 8-10 var meginfiskvinnsluhús HB & Co, síðar HB Granda og Brims. Húsið var upphaflega byggt árið 1949 en síðan byggt við það. Flatarmál hússins er um 5.600 fermetrar. Bárugata 8-10 hýsir ýmsa starfsemi og þá einna helst nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi undir stjórn Breiðar þróunarfélags sem Akraneskaupstaður og Brim eiga saman.

Mikil og skemmtileg áskorun

Falin perla er Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brims hf., ofarlega í huga þegar hann er spurður um Breiðina á Akranesi og áformin þar. Hann segir að í raun sé allt opið varðandi hugmyndasamkeppnina sem er í gangi. Út úr henni munu vonandi koma spennandi vinningstillögur, sem verði kynntar á Akranesi. Þó svo landareignin sé að stórum hluta í eigu Brims sé skipulagsvaldið hjá bæjaryfirvöldum og íbúum á Akranesi.

„Náttúran þarna er einstök, stórkostlegt útsýni í allar áttir, nóg af hreinu lofti og aðgengi að heitu vatni,“ segir Guðmundur. Í kynningu á samkeppninni er enn fremur talað um mikið fuglalíf og fjórar ólíkar fjörugerðir þar sem m.a. er að finna fallega skeljaströnd.

Guðmundur bendir á að á Akranesi hafi tækniiðnaður þróast í mörg ár; þar hafi verið skipasmíðastöð, þar sé nú tæknifyrirtækið Skaginn og nýsköpunarsetrið hafi gengið mjög vel. „Nú gefst tækifæri til að gera það sem íbúar á Akranesi vilja,“ segir Guðmundur, en tekur fram að hann sjái ekki fyrir sér þungaiðnað á Breiðinni.

„Það er mikil og skemmtileg áskorun fólgin í því að skipuleggja svæðið og byggja það upp til framtíðar,“ segir Guðmundur í Brimi.

Svæðið á Breiðinni hefur að stórum hluta verið í eigu forvera Brims, Haraldar Böðvarssonar & Co, í um eina öld. Fram kemur í kynningu á samkeppninni að árið 1906 keypti Haraldur Böðvarsson sexmannafar sem fékk nafnið Helga María og var það upphafið að útgerð Haraldar Böðvarssonar & Co sem árið 1991 sameinaðist Heimaskaga og Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness hf. undir nafninu Haraldur Böðvarsson hf. Liðlega áratug síðar sameinaðist það fyrirtæki Granda og starfaði undir nafninu HB Grandi sem nú heitir Brim hf.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert