Byrjunarlið Íslands: Tvær breytingar frá síðasta leik

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er í byrjunarliði íslenska liðsins gegn Tékklandi.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er í byrjunarliði íslenska liðsins gegn Tékklandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Arnardóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir koma inn í byrjunarlið Íslands fyrir leik liðsins gegn Tékklandi í C-riðli undankeppni HM 2023 í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvelli og hefst klukkan 18:45.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, tilkynnti byrjunarlið sitt fyrir leikinn mikilvæga gegn Tékklandi núna rétt í þessu en hann gerir tvær breytingar á liðinu frá 0:2-tapinu gegn Hollandi hinn 21. september sem fram fór á Laugardalsvelli.

Alexandra Jóhannsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir missa sæti sitt í liðinu en annars er liðið óbreytt frá leiknum gegn Hollandi.

Íslenska liðið þarf nauðsynlega á sigri að halda, ætli það sér að berjast um efstu sæti riðilsins og sæti á HM, en liðið er án stiga í fjórða sætinu á meðan Tékkar eru með 4 stig í efsta sætinu.

Byrjunarlið Íslands:

Sandra Sigurðardóttir
Guðný Árnadóttir
Glódís Perla Viggósdóttir
Guðrún Arnardóttir
Hallbera Guðný Gísladóttir
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
Dagný Brynjarsdóttir
Sveindís Jane Jónsdóttir
Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Agla María Albertsdóttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert