Mögulegar afléttingar „mjög góð tíðindi“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst gott að stjórnendur Landspítalans, þar sem álagið er mest, virðast telja fleti á því að ráðast í afléttingar. Það eru mjög góð tíðindi,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, inntur viðbragða við umræðu um að afléttingar á sóttvarnaaðgerðum séu í vændum.

Þegar kemur að afléttingu sóttvarnaaðgerða þurfi þó að líta á allar hliðar málsins og sýna varkárni. Þar komi skýr afléttingaáætlun sterk inn, að sögn Loga.

„Ég hef nú talið frá upphafi að það hefði farið betur á því að þingið væri meira inni í þessum ákvörðunum öllum en að því gefnu verður maður að sýna þá sanngirni að faraldurinn er auðvitað búinn að ganga í gegnum nokkra fasa. Það sem við vitum núna vissum við ekki þá og svo er þetta alltaf að breytast.

Aðalatriðið segir hann þó vera að halda áfram veginn, með réttum hætti, og að tími sé kominn til þess að skoða afléttingar.

„Verkefni stjórnmálanna þarf að vera að styðja fólk og þau fyrirtæki sem hafa farið illa úr faraldrinum. Allra stærsta verkefnið, sem fer ekkert frá okkur, er svo fullfjármagnað og vel mannað heilbrigðiskerfi, sem á þrátt fyrir allt stóran þátt í því að við erum að fara svona vel út úr faraldrinum.“

Þótt endalok kórónuveirufaraldursins kunni að vera í augsýn, líkt og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, greindi frá í gær, er verkefnum tengd langtímaáhrifum af völdum hans hvergi nærri lokið, að sögn Loga.

„Ég trúi því að það sé hætta á að annarsskonar veikindi hafi aukist í þessum faraldri. Til dæmis þurfum við að kortleggja og bregðast við vísbendingum um að andleg líðan fólks, ekki síst ungmenna, hafi farið versnandi eftir þessu erfiðu ár.

Við þurfum að gæta þess að fólk, atvinnulíf og samfélagið í heild sinni hafi ekki orðið fyrir varanlegum skaða af þessum tveimur árum. Þetta er ekkert búið en það verður svona rýmra um okkur sem leiðir til þess að athafnafrelsi okkar og atvinnulífið gæti farið að ganga betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert