Leik Fram og ÍBV frestað

Fram tekur á móti ÍBV á morgun.
Fram tekur á móti ÍBV á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að fresta leik Fram og ÍBV í handknattleik kvenna til morguns en hann átti upprunalega að fara fram klukkan 13:30 í dag. Um er að ræða leik í 4. umferð Olísdeildarinnar og þann fyrsta hjá liðunum síðan í september eftir langt hlé vegna kórónuveirunnar.

Eyjakonur áttu að sigla til Landeyjahafnar klukkan 9:30 í morgun en misstu af Herjólfi eftir að siglingaáætlun bátsins var óvænt breytt til Þorlákshafnar og var þá lagt af stað klukkan sjö en tilkynning um breytinguna var gefin út klukkutíma fyrr. Davíð Þór Óskarsson, formaður handknattleiksdeildar ÍBV, staðfesti þetta við mbl.is.

Þrír aðrir leikir eru á dagskrá í dag og fara þeir allir fram samkvæmt áætlun. Valur tekur á móti Stjörnunni í Origo-höllinni klukkan 13:30 og mun mbl.is fylgjast með þeim leik í beinni textalýsingu. HK og FH mætast í Kórnum á sama tíma og Haukar fá svo KA/Þór í heimsókn á Ásvelli klukkan 16.

Uppfært kl. 14:44: Leikurinn fer fram á morgun, sunnudaginn 17. janúar, klukkan 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert