Allt að 45 sm hækkun sjávarborðs

Við Voginn í miðbænum í Stavanger þar sem ekki þarf …
Við Voginn í miðbænum í Stavanger þar sem ekki þarf mikið til að saltur sjór væti hellulagðar götur. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Stavanger á vesturströnd Noregs er meðal þeirra norsku byggðarlaga sem standa hve verst að vígi vegna hækkandi yfirborðs sjávar næstu áratugi og aldir.

Vegna ört hlýnandi jarðar hafa fræðingar nú reiknað sig fram til þess að fyrir árið 2100 muni sjávarborð við Stavanger hækka um allt að 45 sentimetra. Aðrar norskar borgir sem búa við hættuna á mun hærra yfirborði sjávar næstu 75 árin eru Bergen, 42 sentimetrar, Tromsø 27 og Ósló 13.

Það er Lise Peterson, deildarstjóri viðbragðs- og samfélagsþróunardeildar sveitarfélagsins Stavanger, sem ræðir málið við norska ríkisútvarpið NRK. Peterson stendur við Voginn svokallaða í litla miðbænum í Stavanger og horfir til hafs.

Öll strandsvæði munu finna fyrir hækkun

Bendir hún á að hvað sem líði metnaðarfullum loforðum heimsbyggðarinnar um losunartakmarkanir muni yfirborð sjávar við vesturströnd Noregs alltaf stíga. Vísar hún þar í glænýja skýrslu landmælingastofnunar Noregs, Kartverket, og norsku veðurstofunnar, Meteorologisk institutt, þar sem settar eru fram spár um sjávarborð Noregs allt fram til ársins 2300.

Raunar munu mestöll strandsvæði Noregs finna fyrir hækkandi yfirborði sjávar næstu áratugina hækki meðalhiti heimsins um tvær gráður eða meira. Standi öll ríki við sín losunarloforð er reiknað með 2,9 gráða hlýnun svo ljóst er að hækka mun í hafinu.

Að sögn Matthew Simpson, rannsakanda landmælingastofnunarinnar, táknar þetta að hlutar landsins fari undir vatn. Það sem fólk flest verði þó fyrst og fremst vart við séu tíðari flóð en nú þekkist – og þekkja Norðmenn flóð þó býsna vel af eigin reynslu, flóð og skriðuföll eru þær náttúruhamfarir sem frændþjóðin þekkir einna best, minna er um jarðskjálfta og eldgos.

Síðast gaus á norsku yfirráðasvæði þegar eldfjallið Beerenberg á Jan Mayen bærði á sér árið 1985, eina virka eldfjall Noregs og nyrsta virka eldfjall jarðar.

Varar við fölsku öryggi

Samkvæmt ívitnaðri skýrslu þarf ekki meira en tíu sentimetra hækkun sjávarborðs til að þrefalda flóðahættuna en Noregur hefur í raun sloppið mun betur en sum önnur lönd í Norðvestur-Evrópu þrátt fyrir að yfirborð sjávar við landið hafi hækkað um fjórtán sentimetra frá 1966. Landið hefur nefnilega risið samtímis hækkun sjávar, til dæmis höfuðborgarsvæðið við botn Óslóarfjarðarins.

Simpson varar þó við falskri öryggistilfinningu. „Hættan er að við hugsum sem svo að þetta sé vandamál sem snerti okkur ekki og við hunsum því langtímaáhættuna sem við búum við,“ segir hann.

Ellen Hambro hjá norsku umhverfisstofnuninni, en sú stofnun pantaði skýrsluna, telur að Norðmenn hafi ekki búið sig mikið undir hamfarir tengdar hækkun sjávarborðsins. Ósló gæti til dæmis sloppið algjörlega við hærra sjávarborð standi ríki heims við losunarskuldbindingar.

Fari allt hins vegar á versta veg hvað hlýnun jarðar snertir næstu 75 árin gætu íbúar Stavanger mátt reikna með tæplega tveggja metra hækkun sjávarborðs við sinn heimabæ. Því verði norsk yfirvöld að gera sitt í losunarmálum, segir Hambro. „Fyrsta mál er að vinna af því af krafti að draga úr losun okkar,“ segir hún.

NRK

NRKII (neitað um sæti á loftslagsfundi vegna olíunnar)

NRKIII (Noregur þarfnist sólarorku strax)

Aftenposten (myndir af Ósló í kafi fari allt á versta veg (2022))

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert