Fylgi ríkisstjórnarflokkanna ekki mælst minna

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa samanlagt tapað 19% fylgi ef marka má könnun …
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa samanlagt tapað 19% fylgi ef marka má könnun Maskínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki mælst minna og er nú 35,2%, ef marka má niðurstöður könnunar Maskínu á fylgi flokka á Alþingi.

Sjálfstæðisflokkur mælist með 19,2% fylgi en fékk 24,4% greiddra atkvæða í síðustu Alþingiskosningum árið 2021 og tapar þannig 5,2%.

Framsóknarflokkur mælist með 10% fylgi en fékk 17,3% greiddra atkvæða í síðustu kosningum og tapar þannig 7,3%.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð mælist með 6,1% fylgi en fékk 12,6% greiddra atkvæða í síðustu kosningum og tapar 6,5% eða meira en helming af fylgi sínu.

Samfylkingin enn stærst

Samfylkingin er enn stærsti stjórnmálaflokkur landsins ef marka má könnun Maskínu. Fylgi hennar hefur aukist mikið síðan í Alþingiskosningunum árið 2021 þegar flokkurinn fékk 9,9% greiddra atkvæða.

Fylgi flokksins hefur áfram vaxið jafnt og þétt í könnun Maskínu undanfarna mánuði. Í mars mældist Samfylkingin með 24,4% fylgi, í apríl með 25,7% og nú með 27,3% fylgi.

Píratar mælast með 11% fylgi, Viðreisn með 9,1%, Miðflokkurinn með 6,4%, flokkur fólksins með 5,6% og Sósíalistaflokkurinn með 5,2% fylgi.

Könnunin var gerð dagana 4. til 16. maí og 1.726 svarendur tóku afstöðu til flokks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert