Heimsklassa stuðningur sem við fáum

Sigurður Gunnar Þorsteinsson leikmaður Tindastóls.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson leikmaður Tindastóls. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sigurður Gunnar Þorsteinsson leikmaður Tindastóls átti skínandi fínan leik eins og allir liðsfélagar hans í gærkvöldi þegar liðið vann Val 91:75 í öðrum leik liðanna í úrslitaleik Íslandsmótsins í körfubolta karla í gærkvöldi.

„Ég er bara mjög ánægður. Við breyttum okkar leik, vorum ákveðnir og ekki eins flatir og síðast. Við löguðum það.“

Það var ljóst frá fyrstu mínútu leiksins hvort liðið færi með sigur af hólmi. Yfirburðir Tindastóls voru gífurlegir.

„Við slökuðum aðeins á í þriðja leikhluta en héldum haus, það er frábært. Við þurfum að bæta okkur enn meira fyrir næsta leik. Þeir fengu 11 sóknarfráköst, við viljum halda þeim neðar. Við töpuðum of mörgum boltum, það gerist í hverjum leik en í kvöld voru sumir óþvingaðir og bara klaufaskapur.“

Stuðningsmenn Tindastóls voru gjörsamlega magnaðir í gærkvöldi.

„Þetta er heimsklassa stuðningur sem við fáum, alveg sama í hvaða húsi við erum á landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert