Innlent

Fimm greindust smitaðir og skólastarf hefst aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi segir að þar sem lang flestir hafi lokið sóttkví og smitgát og enginn hafi greinst utan sóttkvíar geti skólahald hafist að nýju í fyrramálið.
Í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi segir að þar sem lang flestir hafi lokið sóttkví og smitgát og enginn hafi greinst utan sóttkvíar geti skólahald hafist að nýju í fyrramálið. Vísir/Vilhelm

Fimm greindust smitaðir af Covid-19 á Reyðarfirði í gær og allir voru í sóttkví. Rúmlega tvö hundruð sýni voru tekin og þar að auki rúmlega níutíu hraðpróf sem smitgátar sem reyndust öll neikvæð.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi segir að þar sem lang flestir hafi lokið sóttkví og smitgát og enginn hafi greinst utan sóttkvíar geti skólahald hafist að nýju í fyrramálið. Það verði með nokkuð eðlilegum hætti bæði í leik- og grunnskóla Reyðarfjarðar.

Þá segir að enn séu margir starfsmenn leikskólans Lyngholti frá vinnu og verða það næstu daga. Því þurfi mögulega að loka einhverjum deildum skólans.

„Aðgerðstjórn er bjartsýn á að tekist hafi að ná utan um þau smit sem tóku að greinast á Reyðarfirði í síðustu viku. Íbúum er þakkað fyrir mikið þolgæði og samstöðu í þessu verkefni sem okkur hefur tekist afar vel að komast í gegnum,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig áfram verði fylgst náið með gangi mála og frekari tilkynningar verði sendar eftir þörfum.

„Atburðir síðustu daga hafa sýnt okkur að við þurfum áfram að vera á varðbergi gagnvart veirunni. Gætum því áfram vel að eigin sóttvörnum og mætum í sýnatöku við minnsta grun um einkenni.“

21 er í eingangrun á Austurlandi og 206 í sóttkví, samkvæmt tölum á covid.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×