West Ham fékk belgískan mótherja

West Ham fagnaði 4:0-sigri á AEK Larnaca í gærkvöld.
West Ham fagnaði 4:0-sigri á AEK Larnaca í gærkvöld. AFP/Ben Stensall

Enska liðið West Ham mætir Gent frá Belgíu í átta liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta en dregið var til þeirra rétt í þessu.

West Ham hefur unnið alla tíu Evrópuleiki sína í vetur á meðan liðinu hefur aðeins tekist að vinna sex leiki í ensku úrvalsdeildinni og er þar í harðri fallbaráttu.

Gent vann magnaðan útisigur á Istanbul Basaksehir í Tyrklandi í gærkvöld, 4:1, þar sem Gift Orban, tvítugur Nígeríumaður, skoraði þrennu á þremur mínútum og 25 sekúndum.

Lech Poznan frá Póllandi, sem þurfti framlengingu til að slá Víking út úr þriðju umferð keppninnar, eftir að hafa tapað 1:0 á Víkingsvellinum, mætir Fiorentina frá Ítalíu.

Þessi lið mætast í átta liða úrslitum 13. og 20. apríl:

Lech Poznan - Fiorentina
Gent - West Ham
AZ Alkmaar - Anderlecht
Basel - Nice

Þessi lið mætast í undanúrslitum 11. og 18. maí:

Lech Poznan eða Fiorentina - Basel eða Nice
Gent eða West Ham - AZ Alkmaar eða Anderlecht

Úrslitaleikurinn fer fram í Prag 7. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert