Leeds tapaði áfrýjuninni

Pascal Struijk var rekinn af velli gegn Liverpool á sunnudaginn.
Pascal Struijk var rekinn af velli gegn Liverpool á sunnudaginn. AFP

Pascal Struijk, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Leeds United, mun þurfa að taka út þriggja leikja bann eftir að hafa fengið rautt spjald í leik gegn Liverpool um síðustu helgi. Leeds áfrýjaði úrskurðinum en bannið stendur.

Struijk fékk rauða spjaldið eftir athugun VAR eftir að harkaleg tækling hans varð þess valdandi að Harvey Elliott, miðjumaður Liverpool, meiddist illa á ökkla.

Forsvarsmönnum Leeds fannst sem enginn ásetningur hafi verið til staðar af hálfu Struijk og áfrýjuðu því leikbanninu.

Enska úrvalsdeildin féllst þó ekki á rök Leeds og hefur ákveðið að þriggja leikja banninu verður framfylgt.

Struijk mun því missa af deildarleikjum gegn Newcastle United og West Ham United auk leiks í deildabikarnum gegn Fulham.

Hann má spila aftur þann 2. október þegar Leeds mætir Watford í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert