Það var snemma ljóst að Haukar ætluðu sér sigurinn en heimakonur slökuðu heldur á klónni undir lok fyrri hálfleiks og var munurinn aðeins þrjú mörk þegar gengið var til búningsherbergja, staðan þá 13-10.
Í síðari hálfleik var hins vegar fóturinn settur af öllum þunga á bensíngjöfina. Skoruðu Haukar átta mörk í röð áður en Stjarnan náði að svara. Þegar leiktíminn rann út var munurinn kominn upp í 13 mörk, lokatölur á Ásvöllum 29-16.
Sara Sif Helgadóttir átti magnaðan leik í marki Hauka en hún varði 12 skot af þeim 23 sem komu á markið og var með 52 prósent hlutfallsmarkvörslu. Þá varði Elísa Helga Sigurðardóttir tvö skot.
Hvað sóknarleik Hauka varðar þá var Elín Klara Þorkelsdóttir markahæst með sex mörk. Þar á eftir kom Sonja Lind Sigsteinsdóttir með fimm á meðan Sara Odden og Ragnheiður Ragnarsdóttir skoruðu fjögur hvor.
Í liði Stjörnunnar skoruðu Embla Steinþórsdóttir og Anna Lára Davíðsdóttir fimm mörk hvor á meðan Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 10 skot í markinu.
Haukar er í 3. sæti með fjögur stig á meðan Stjarnan er í 6. sæti með tvö stig.