Skiptir mestu að við höfðum hvert annað

Katrín Björk Guðjónsdóttir.
Katrín Björk Guðjónsdóttir.
„Þegar mamma fór að leita að mér þá var ég í hnipri til fóta í rúminu mínu og svaf. Hún hefur oft minnst þess með hryllingi þegar hún var að þreifa um rúmið mitt í myrkrinu til að finna mig en fann mig ekki strax. En þarna var ég og svaf værum og djúpum svefni.“
Þannig skrifar Katrín Björk Guðjónsdóttir á blogg sitt. Hún lýsir þar áhrifum snjóflóðanna sem féllu á Flateyri 26. október 1995 á líf sitt og fjölskyldunnar. Hún var tveggja og hálfs árs gömul og tekur fram að þótt hún muni lítið eða ekkert frá þessum tíma hafi atburðurinn haft áhrif á hugsunarhátt hennar fyrir lífstíð.

Nóttina örlagaríku svaf hún í svefnherbergi foreldra sinna í rúmi með háum fóta- og höfðagafli. „Við systurnar erum þrjár. Önnur systra minna var með einhver ónot í sér svo hún náði í hina sem var farin að sofa í sínu rúmi og lokkaði hana til að koma til sín í sitt rúm, sem betur fer.

Þessi tvö atriði; að ég var í rúmi með háum göflum og að systur mínar hafi verið saman í herbergi, því herbergi sem kom betur undan flóðinu, skipti sköpum í þessum ægilega hildarleik þegar náttúran ákvað að sparka okkur burt af þessum stað, en leyfa okkur öllum fimm að komast lífs af,“ skrifar Katrín. Hún bendir á að þegar skoðaðar eru myndir af húsinu sjást vel hvernig sá hluti hússins þar sem rúm systur hennar var hafði allur brotnað. Rúmið hafi verið í klessu undir þakinu.

Hún heldur áfram: „Sem betur fer hafði pabbi byggt svo sterkt hús að efri hæðin flaut ofan á flóðinu og við komumst öll lífs af. Við misstum allt veraldlegt en höfðum hvert annað og það skiptir mig mestu máli.“ Hún segir að þeim hafi þótt ósanngjarnt að náttúran gæti rekið þau frá Flateyri og hafi faðir hennar byggt annað hús á staðnum og þar búa þau nú.

Greinin um blogg Katrínar í heild er að finna í Morgunblaðinu í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert