„Við eigum að vera framtakssöm“

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands segir mikilvægt að menn taki …
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands segir mikilvægt að menn taki saman höndum til að varðveita þjóðararfinn. Ómar Óskarsson

Agnes M. Sig­urðardótt­ir, bisk­up Íslands, lagði áherslu á þjóðararfinn og mikilvægi þess að menn taki saman höndum til að varðveita hann, í pre­dik­un sinni á íslenska þjóðhátíðardeginum sem haldinn er hátíðlegur í dag.

Við stöndum á grunni fortíðar, þess sem var, þess sem var ákveðið, þess sem var staðfest.  Það gerðist ekki óvænt og án undanfara að íbúar þessarar eyju í norðurhöfum urðu íbúar lýðveldisins Íslands fyrir 77 árum. Kynslóðir koma og kynslóðir fara, hver kynslóð tekur við arfi frá fyrri kynslóð. Arfi sem varðveita ber og hlúa að,“ segir biskup.

Í predikuninni minnist biskup á útlit þjóðfánans en hugmyndin um hann mun vera komin frá Matthíasi Þórðarsyni, þáverandi þjóðminjaverði. Hann stakk upp á því að litir fánans myndu tákna fjallablámann, ísinn og eldinn.

„Matthías hefur sennilega ekki grunað að rúmri öld síðar hefðu jöklarnir bráðnað svo mjög að minningarathöfn hefur verið haldinn um einn þeirra sem horfinn er.“

Segir kirkjur landsins hluta af þjóðararfinum

Að sögn biskups er þjóðararfurinn mikilvægur okkur sem byggjum þetta land. Hann minni okkur á rætur okkar og skyldur við landið sem okkur hefur verið úthlutað til varðveislu nú og fyrir komandi kynslóðir. Kirkjur landsins séu svo hluti af þessari arfleifð.

Vel er haldið utan um þann þjóðmenningararf okkar sem í kirkjunum býr af fólki sem þykir vænt um kirkjuna sína og hefur verið kosið til að annast kirkjuhúsið í sinni sókn. Því miður duga félagsgjöld sóknarbarnanna ekki til þessa viðhalds enda margar sóknir fámennar og kirkjuhúsin gömul og þurfa stöðugt viðhald. Við gleymum því oft að menningararfinum er ekki eingöngu viðhaldið með fjárútlátum úr sameiginlegum sjóðum okkar heldur er það fólkið í landinu sem fyrst og fremst lætur til sín taka á þessu sviði. Á ferðum mínum til fólksins í landinu hef ég orðið vör við áhyggjur þeirra sem nú eru í sóknarnefndunum og sinna kirkjuhúsunum í hinum dreifðu byggðum landsins af því að þau óttast það að sjálfboðin þjónusta við þennan menningararf verði ekki fyrir hendi innan fárra ára.“

Í guðspjalli þjóðhátíðardagsins setur biskup fram þrjú orð í boðhætti: biðjið, leitið og knýið á. Að sögn biskups eiga þessi orð að hvetja fólk til athafna.

Við eigum ekki að vera aðgerðalaus heldur athafnasöm. Ef við biðjum fáum við svör, ef við leitum þá finnum við, ef við knýjum dyra verður opnað fyrir okkur. Samkvæmt þessu eigum við að sýna frumkvæði. Við eigum ekki að sitja með hendur í skauti. Við eigum að vera framtakssöm,“ segir biskup.

Andleg leit fólks sjaldan verið meiri

Þá segir biskup undanfarið ár hafa reynst mannkyninu öllu erfitt vegna heimsfaraldursins og andleg leit fólks hafi sjaldan verið meiri en nú. Pestin hafi þó ekki fengið að eiga sviðið að öllu leyti. Þökk sé markvissum aðgerðum yfirvalda og samtakamætti almennings tókst að draga úr útbreiðslu veirunnar þegar hún ætlaði að ná yfirhöndinni.

Við höfum rækilega verið minnt á að afstaða, hugsunarháttur, skiptir máli ef árangur á að nást. Þótt lífsskoðun þegna þessa lands sé ekki einsleit tókst að mynda samstöðu um að treysta þeim sem þekkinguna hafa og að fara eftir þeim reglum sem þar til bær stjórnvöld settu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert